133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[12:51]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason vændi mig um að ég vissi ekki út á hvað þetta frumvarp gengi. Það er nú ekki svo, hv. þingmaður, ég á sæti í iðnaðarnefnd og þekki vatnalögin sem við höfum farið yfir og veit að verið er að fara í gegnum það með þeim hætti sem gert er í þessu frumvarpi.

En ég spurði ítrekað hv. þingmann og vildi fá umræðu um einmitt umhverfismál hvað varðar vatnið. Ég spurði ítrekað um það hvort hv. þingmaður og Vinstri grænir vildu ekki einmitt hagnýta vatnið til góðra verka og hvort við þyrftum ekki til þess að hafa stjórn á vatninu einmitt. Mig langar aðeins að fá svör við því.

Að fara að tala um Ísrael og einhverja þætti sem koma málinu ekkert við, tala út og suður, ég held að það sé nefnilega tími til kominn að Vinstri grænir á hinu háa Alþingi tali um umhverfismál þannig að við heyrum og skiljum hvað menn vilja og hvað menn eiga við þegar þeir segjast vera eini græni flokkurinn í landinu. Hvernig vill hv. þingmaður hafa löggjöf um vatn og vill hv. þingmaður ekki hafa löggjöfina á þann hátt að við höfum stjórn á vatninu til góðra verka, til sjálfbærrar þróunar? Mig langar að fá nokkur orð. Við skulum kannski eiga orðastað í ræðu síðar í umræðunni. En ég óska eftir að þingmaðurinn svari einhverju en tali ekki út og suður um Palestínu og Ísrael.