133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:30]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ástæða þess að ég hef óskað eftir þessari utandagskrárumræðu er ekki til komin vegna einhvers eins atburðar eða tilefnis heldur þeirra áhrifa sem fjölgun, bæði íbúa og verkamanna hefur haft á heilbrigðismál og heilbrigðisþjónustu á Austurlandi.

Með sameiningu heilbrigðisstofnana allt frá Bakkafirði að Djúpavogi, árið 1998, í þeim tilgangi að efla þjónustu á öllu svæðinu lögðu stjórnendur og starfsfólk mikið á sig til að ná settu marki. Heilbrigðisstofnun Austurlands var rétt að ná áttum sem eins stofnun þegar undirbúningur stórframkvæmdanna á Austurlandi fór í gang árið 2002. Frá þeim tíma hefur álag á sjúklinga, starfsmenn og rekstur verið mikið. Með innkomu nokkur þúsund starfsmanna inn á Miðausturland við erfið og oft áhættusöm störf hafa tilefni til heilbrigðisþjónustu breyst, slysa- og bráðamóttaka hefur aukist og sjúkraflutningar og innlagnir hafa verið hærri en ef miðað væri eingöngu við fjölda íbúa.

Strax á árinu 2004 var rekstrarstaða stofnunarinnar neikvæð og hefur hún mátt búa við mjög erfiða rekstrarstöðu allt fram til þessa. En nú er útlit fyrir að stofnunin fari í fyrsta sinn inn í nýtt rekstrarár án skuldahala. Á síðasta ári dró stofnunin úr starfsemi og voru felldar niður m.a. að hluta komur farandsérfræðinga. Ströng takmörk voru sett á alla vinnu utan dagvinnutíma og hvaða verkefnum mátti sinna. Afleysingum var ekki sinnt nema öryggi sjúklinga eða starfsmanna væri ógnað. Vaktir voru sameinaðar, innkaup endurskipulögð og hagkvæmni gætt eins og kostur var. Þetta er það umhverfi sem starfsfólk og sjúklingar búa við og það ætti öllum að vera ljóst að þessar aðstæður eru óásættanlegar til lengri tíma. Skortur á hjúkrunarrýmum hefur valdið miklum erfiðleikum og hafa sjúklingar þurft að taka á sig mikil óþægindi vegna flutnings milli stofnana af þeim sökum.

Hæstv. forseti. Mér finnst aðdáunarvert hve mikla þolinmæði starfsfólk og sjúklingar hafa sýnt við erfiðar aðstæður. En það er einnig ljóst að það er ekki hægt að bjóða upp á óbreytt ástand enn og inn í óræða framtíð. Því spyr ég hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga:

1. Telur ráðherra að heilbrigðisþjónusta hafi fylgt eftir auknu álagi og fjölgun íbúa á Austurlandi frá árinu 2002?

2. Telur ráðherra ásættanlegt að blanda saman öldrunarhjúkrun og bráðamóttöku á sömu deild? Ef ekki, hvenær má búast við úrbótum í hjúkrunarþjónustu aldraðra og byggingu nýs sjúkrahúss á Egilsstöðum?

3. Standast verklok og verður endurgerð hjúkrunardeild í Neskaupstað fullinnréttuð, sjúkrahúsið tækjum búið og fjármagn til reksturs deildarinnar tryggt?

4. Mun ráðherra beita sér fyrir aukinni sérfræðiþjónustu samanber samninga um geðheilbrigðisþjónustu?

5. Telur ráðherra að reka megi samkeppnishæfa heilbrigðisþjónustu á Austurlandi á fjárframlögum þessa árs?

6. Hvernig sér ráðherra að þróun heilbrigðisþjónustu verði á Austurlandi á næstu árum?

Hæstv. forseti. Ég veit að þetta eru ítarlegar, margar og miklar spurningar en þetta eru þær spurningar sem brenna á íbúum Austurlands um þessar mundir og hafa gert það allt frá árinu 2002. Íbúar hafa verið þolinmóðir, sjúklingar hafa verið þolinmóðir, en það er hægt að taka á sig slíkt álag um ákveðinn tíma en það verða líka allir að sjá fram á að það sé einhver framtíðarsýn, hvernig eigi í fyrsta lagi að koma þjónustunni á svipað stig og það var áður en stórframkvæmdir hófust, að fólk geti gengið að þeirri þjónustu eins og hún var eða hvernig á að byggja hana upp. Hvernig á sérfræðiþjónustan að vera, sem ég kom ekki inn á? Hvernig á að tryggja stöðu skurðdeildar á Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað öðruvísi en að flýta jarðgangagerð á Austurlandi?

Það væri hægt að bæta við mörgum spurningum sem ég veit að hæstv. ráðherra hefði ekki tök á að svara. En það brennur á íbúum héraðsins, það brennur á komandi íbúum sem vonandi fjölgar til lengri ábúðar á Mið-Austurlandi, það brennur á þessu fólki að geta gengið að tryggri heilbrigðisþjónustu. Það er lítils að vera að koma á stærstu byggðaáætlun allra tíma ef undirbyggingin er ekki traust. Og það er sannarlega heilbrigðisþjónustan eins og önnur opinber þjónusta.

Hæstv. forseti. Ég vona að hér fari fram góðar umræður og að heilbrigðisráðherra nái að svara einhverjum hluta spurninganna.