133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:35]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Já, þetta eru margar spurningar. Í fyrsta lagi er spurt hvort heilbrigðisþjónustan hafi fylgt eftir auknu álagi varðandi fjölgun íbúa á Austurlandi frá árinu 2002.

Eins og hv. þingmanni er kunnugt hefur uppbygging heilbrigðisþjónustu á Austurlandi verið mikil undanfarin ár og hluti hennar er vegna stóriðjuframkvæmda. Nokkur stór viðhalds- og endurnýjunarverkefni á húsnæði hafa haft í för með sér bættar aðstæður til að sinna heilbrigðisþjónustu við íbúa svæðisins. Fleiri verkefni eru í undirbúningi, sérstaklega vegna aukinnar og breyttrar þjónustu við aldraða. Starfsfólki hefur verið fjölgað í samræmi við fjölgun íbúa og fjárveitingar hafa aukist á árabilinu sem þingmaðurinn spyr um.

Það er einnig spurt, virðulegur forseti, hvort ásættanlegt sé að blanda saman öldrunarhjúkrun og bráðamóttöku á sömu deild. Ég tel að það sé ekki æskilegt að blanda slíku saman en hins vegar getur þetta verið óhjákvæmilegt við vissar aðstæður, einkum þar sem fámenni er og stofnanir eru litlar og nauðsynlegt að nýta þá fagþekkingu sem fyrir er á staðnum.

Varðandi það hvenær búast megi við úrbótum í hjúkrunarþjónustu aldraðra og byggingu nýs sjúkrahúss á Egilsstöðum vil ég segja það, virðulegur forseti, að áætlað er að vinnu við frumathugun ljúki á næstu mánuðum. Á grundvelli þeirrar vinnu verður tekin ákvörðun um framhald verksins og munu framkvæmdir hefjast þegar fjármagn til verksins hefur verið tryggt að því gefnu að niðurstaða frumathugunar sé í þá veru.

Varðandi þriðju spurningu hv. þingmanns um hvort verklok standist og endurgerð hjúkrunardeildar í Neskaupstað verði fullinnréttuð og sjúkrahúsið tækjum búið og fjármagn til reksturs deildarinnar tryggt, þá er svarið við öllum þessum spurningum jákvætt. Verklok á framkvæmdum verða í lok þessa mánaðar og þá verður hafist handa við að setja inn tæki og búnað miðað við starfsemina. Áætlað er að sú vinna muni taka um einn mánuð og fjármagn til reksturs deildarinnar er tryggt.

Í fjórða lagi er spurt hvort ráðherrann muni beita sér fyrir aukinni sérfræðiþjónustu, samanber samning um geðheilbrigðisþjónustu. Svarið við þessari spurningu er einnig já, en vegna aðstæðna á Austurlandi hefur verið lögð mikil áhersla á að gera sérstaka samninga um sérfræðiþjónustu þangað og vel hefur tekist til og ég vil nefna nokkur góð dæmi. Samningur hefur verið í gildi við FSA um geðlæknisþjónustu um nokkurra ára skeið og þá hafa geðlæknar frá höfuðborgarsvæðinu sinnt þjónustu við bæði Egilsstaði og Neskaupstað og geðlæknir hefur sinnt þjónustu á vegum félagsþjónustunnar á Egilsstöðum með reglubundnu samráði við starfsfólk heilbrigðisþjónustu, sem er áhugaverð nýbreytni og lofar góðu.

Þá hefur verið veitt sálfræðiþjónusta á grundvelli samnings LSH við heilsugæsluna en sá samningur er kostaður af ríkissjóði. Það verkefni hefur einnig gengið mjög vel og hafa heimamenn áhuga á að sá samningur verði framlengdur.

Síðast en ekki síst vil ég draga það fram að nýlega var gerður samningur um sérfræðiþjónustu fyrir börn og unglinga með geðraskanir, m.a. fyrir Austurland, en sú nýbreytni er hluti af stefnumótun minni í þeim málaflokki og farþjónusta barnalækna við Austurland hefur verið til fyrirmyndar.

Varðandi fimmtu spurningu hv. þingmanns um hvort fjárframlög þessa árs tryggi samkeppnishæfi heilbrigðisþjónustunnar á Austurlandi að teknu tilliti til skuldastöðu HSA og aukinnar samkeppni um starfsmenn er því til að svara: Já, með nýju reiknilíkani sem þróað hefur verið í heilbrigðisráðuneytinu gefst kostur á að tryggja betur að fjárveitingar séu í samræmi við aðstæður á hverjum stað. Á Austurlandi er tekið tillit til m.a. strjálbýlis og mannfjöldaþróunar og samsetningar og fjárveitingar eru miðaðar við þau gögn. Og svo sannarlega hafa Austfirðingar ekki ástæðu til annars en að vera sáttir við þau viðmið sem gilda fyrir þjónustuna þar af því að með nýja reiknilíkaninu sáum við að það hafði verið þörf á því að bæta í í fjárlögunum og það var bætt í 94,7 milljónum á fjáraukalögum og 179 í fjárlögum þessa árs og þar af var hluti af því fjármagni einmitt vegna reiknilíkansins. Reiknilíkanið hefur því sýnt að það var eðlilegt að setja meira fjármagn til Austurlands en hafði verið áður.

Í sjötta lagi er spurt hvernig sú er hér stendur sjái fyrir sér þróun heilbrigðisþjónustu á Austurlandi á næstu árum. Virðulegur forseti. Ég sé fyrir mér áframhaldandi uppbyggingu á þeim grunni sem hefur verið lagður undanfarin ár og nú liggja fyrir í ráðuneytinu til skoðunar hugmyndir um þróun heilbrigðisþjónustunnar fyrir austan, unnar að mestu leyti af heimamönnum og í góðu samræmi við megináherslur mínar og ég tel að hugmyndirnar séu raunhæfar. Það hefur ekki verið tekin endanleg afstaða til þessara tillagna en meðal þess sem er til skoðunar er að lagfæra aðstöðuna til skammtímainnlagna á svæðinu, að byggja öldrunarstofnanir samkvæmt nýjum hugmyndum sem eru að ryðja sér til rúms, það er eins og áður sagði í skoðun, svo er verið að kanna hvort rétt sé að vera með skurðdeild á Egilsstöðum, og á Norðfirði er nýbúið að efla og bæta aðstöðuna eins og áður segir, virðulegur forseti.