133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:49]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Heilbrigðisþjónusta á Austurlandi hefur verið borin uppi af góðu og öflugu fólki um árabil. Hún er góð í grunninn, þar er vaxandi sérfræðiþjónusta, aukin starfsemi og aukin héraðshlutdeild í heilbrigðisþjónustunni. Hvað varðar ummæli hv. þm. Kristjáns Möllers þá var brugðist við bréfi SSA á þann áhrifamikla hátt að 268 millj. var bætt inn í þennan rekstur á fjárlögum og fjáraukalögum. Ég efast um að einhverjir fundir okkar þingmanna hefðu bætt miklu þar um. Það hefur verið uppbygging á Norðfirði, þar á að afhenda í dag nýtt húsnæði fyrir öldrunarþjónustu og endurhæfingu. (Gripið fram í.) Það er ekki rétt, og menn skulu bara hafa réttar upplýsingar á takteinum, það er fjármagn til að reka það.

Það sem liggur fyrir er að byggja upp á Egilsstöðum, þar vantar rými fyrir skammtímainnlagnir, að bæta aðstöðu fyrir bráðaþjónustu og rýma þar því að sjúkrarými þar eru upptekin fyrir aldraða langlegusjúklinga. Það er verkefni sem liggur fyrir. Vandamálið sem um er að ræða á Austurlandi, og það er dálítið broslegt að heyra hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala um það, er m.a. hin mikla atvinnuuppbygging og mikla fjölgun starfa þar vegna starfa þessarar ríkisstjórnar. (Gripið fram í: Á Djúpavogi?) Menn æpa hér upp að það séu vandamál uppi (Forseti hringir.) en þetta vandamál er jákvætt. Við tökumst á við það vegna þess að það er (Forseti hringir.) líf og kraftur á Austurlandi.