133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

heilbrigðismál á Austurlandi.

[13:52]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Mér finnst alveg ótrúlegt metnaðarleysi birtast hér í máli þeirra sem tala fyrir hönd stjórnarliðsins í þessu máli. Hæstv. heilbrigðisráðherra talar eins og allt sé í góðu lagi, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir sér ekki nokkurn vanda, það er helst að (Gripið fram í.) hv. þm. Jón Kristjánsson hafi aðeins gert sér grein fyrir að ýmislegt er að þarna og hann einn benti á það sem skiptir verulega miklu mála fyrir stöðu mála t.d. á Egilsstöðum og Héraði, þ.e. að þar eru öll bráðarými sem menn áður höfðu úr að spila full af öldrunarsjúklingum. Í fyrsta lagi, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, er það einfaldlega nútímastefna í heilbrigðisfræðum að menn reka ekki (Gripið fram í.) heilsugæslustöð með öldrunarþjónustu af þessu tagi þar sem menn verða að liggja inni. Í öðru lagi er rétt að rifja það upp fyrir hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur að m.a. hún hefur margsinnis tekið undir nauðsyn þess að byggja hjúkrunarheimili á Egilsstöðum og svo kemur hv. þm. Jón Kristjánsson ásamt henni og þau segja að verið sé að gera það. Hversu oft höfum við ekki í þessum sölum heyrt vilyrði fyrir því en í dag er það bara vilyrði. Af því að menn guma af því að búið sé að byggja upp öldrunarþjónustu í Neskaupstað þá var það einungis vegna þess að það var eftirgangur heimamanna og þingmanna í héraði, annarra en þeirra sumra sem hér hafa talað, sem sveið peningana út til að hægt væri að opna það mál.

Hv. þm. Jón Kristjánsson sagði hins vegar áðan, réttilega, að vandinn væri sá að á síðustu árum hefði fjölgað um 4.000 manns á þessu svæði vegna framkvæmda sem menn hefðu ráðist í. Það er jákvætt fyrir svæðið, að sjálfsögðu, en það þýðir hins vegar ekki að ráðast í framkvæmdir af þessu tagi nema hyggja líka að grunngerð samfélagsins. Við höfum áður tekið þátt í umræðum hér (Forseti hringir.) um það hversu fyrirhyggjulaus stjórnvöld voru, m.a. á tíma hans í ráðuneytinu, varðandi þjónustuna við þann fjölda verkamanna sem kom til starfa á þessu framkvæmdasvæði.