133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:01]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Áður en ég tek til máls vil ég inna hæstv. forseta eftir því hvort hæstv. ráðherra sé ekki örugglega í kallfæri.

(Forseti (JóhS): Hæstv. ráðherra er í hliðarsal og verður kallaður til fundar í salnum.)

Já, þarna er hann, flott er, þakka þér kærlega fyrir.

Þetta er nefnilega hið merkilegasta mál, frú forseti. Óhætt er að segja um vatnalögin og þá umræðu alla og úrslit málsins, að það var örugglega ekki besta stund ríkisstjórnarinnar á nýliðnu kjörtímabili. Málið var með þeim endemum að það hraktist út í það að ríkisstjórnin frestaði gildistökuákvæðinu fram yfir kosningar. Þá náðist samkomulag um að ljúka málinu en það kemur svo aftur hérna inn með þessum hætti. Það er svolítið sérkennilegt að hæstv. landbúnaðarráðherra skuli vekja upp þennan gamla og sára draug fyrir ríkisstjórnina sem vatnalögin öll voru. Þetta er mál sem kallast á við fjölmiðlafrumvarpið. Þetta var eitt af þessum dramatísku mistökum ríkisstjórnarinnar, að mínu mati. Verið var að einkavæða nýtingarréttinn á vatni. Það stendur upp úr og blasir við. Um það snerust átökin sem stóðu dögum ef ekki vikum saman í það heila. Ætli það hafi ekki verið eitt af þremur mestu átakamálum kjörtímabilsins, fjölmiðlamálið, Ríkisútvarpið og vatnalögin sem öll snerust um annaðhvort einkavæðingu eða misbeitingu á pólitísku valdi eins og fjölmiðlalögin snerust um.

Hér talar hæstv. landbúnaðarráðherra um að vegna velvilja nýtilkomins iðnaðarráðherra sé hann þess pólitískt umkominn að gera þessa lagabreytingu, væntanlega af því að andúð fyrrverandi iðnaðarráðherra í garð hæstv. ráðherra er þá horfin og hann getur fengið til baka það sem hann vill fá af málinu og hefur stundum verið kennt við stóra verkefnahnuplið á milli ráðuneytanna. Málið er allt hið kostulegasta og nokkuð háðuleg för hæstv. landbúnaðaráðherra að koma inn í þingið til að leiðrétta skæklatog þessara tveggja samflokksmanna og samherja í ríkisstjórn Íslands um þetta mál, sem var einn þáttur af einu stærsta pólitíska átakamáli síðustu ára, þ.e. séreignarvæðing á vatni. Málið er ekki flóknara en það. Hæstv. landbúnaðarráðherra bar nokkuð í bætifláka fyrir það áðan í andsvörum við hv. þm. Jóhann Ársælsson og fullyrti að hann væri ekki stuðningsmaður einkavæðingar vatnsins.

Hér urðu örlitlar umræður um stjórnarskrármálin, að það væri í stjórnarsáttmálanum að auðlindaákvæðið skyldi fara inn í stjórnarskrána. Og í ljósi þess hvernig það fór, að ekki náðist samkomulag um það og Sjálfstæðisflokkurinn náði að knésetja Framsóknarflokkinn í þeirri umræðu og koma í veg fyrir að málið næði fram að ganga, þá rak mig í rogastans þegar ég í hádeginu var að lesa drög að ályktun um auðlindir Íslands sem liggja núna fyrir flokksþingi Framsóknarflokksins sem hefst um helgina. Þar er margt að finna á þeim 37 síðum sem ályktunin tekur til og er nú afskaplega brött og nokkuð örvæntingarfull tilraun framsóknarmanna til að breyta sér í sósíaldemókrataflokk 70 dögum fyrir kosningar, svona meira og minna unnið upp úr gömlum og góðum klassískum krataplöggum, minnir um margt á stefnuskrá Samfylkingar. Þarna er einn maður eitt atkvæði, (Gripið fram í.) burt með afnám stimpilgjalds. Hluti námslána breytist í styrk og svo það sem stendur hér, að í stjórnarskrá standi að auðlindir landsins séu sameign þjóðarinnar

Þarna er Framsóknarflokkurinn að fara fram með það í stefnuskrá sem í rauninni gengur þvert á þau lög sem við erum að endursamþykkja hérna í dag af því að auðvitað gengur þessi breyting á lögum um vatnalögin út á að endurtaka að því leytinu til vatnalagaferlið, að þetta kostulega mál er komið inn í þingið aftur í þessu formi. Þess vegna hlýtur pólitísk umræða um eignarhaldið á vatninu, um séreign og sameign á auðlindum þjóðarinnar, að fara fram um leið. Það er alveg augljóst mál af því að þarna er verið að breyta lögum um vatnalög. Þá hljótum við um leið að ræða það hvort ekki eigi í leiðinni að gera aðrar breytingar á lögum um vatnalög sem eiga að taka gildi 1. júlí árið 2007, tæplega tveimur mánuðum eftir kosningar. Ljóst er að ríkisstjórnin er með þessu máli að rjúfa sáttina sem var gerð við stjórnarandstöðuna á sínum tíma sem fólst í því að málið var afgreitt með gildistökufrestun fram yfir kosningar. En hér er verið að taka málið upp aftur og þó það sé einn afmarkaður angi af því og heiti núna allt annað, um varnir gegn landbroti, og lagt fram af hæstv. landbúnaðarráðherra, þá er verið að breyta nýsamþykktum lögum um vatnalög. Það gefur alveg augaleið. Verið er að breyta lagabreytingunum sem eiga að taka gildi 1. júlí, það eru breytingar á 1923-lögunum um eignarhald á vatni. Það gefur augaleið.

Þess vegna hljóta líka að vakna upp umræður um eignarhald allra auðlinda náttúrunnar, eins og hv. þingmaður kom inn á áðan, og meðferð á sameiginlegum auðlindum okkar allra. Það opinberast núna í þessu máli og í lyktum stjórnarskrármálsins hvernig auðlindabraskið hefur í rauninni farið. Eignarhaldið á auðlindum þjóðarinnar, á vatninu, á fiskinum í sjónum, á fallvötnunum o.s.frv. á að sjálfsögðu að vera sameign þjóðarinnar. Þetta er eitt grundvallarmál okkar jafnaðarmanna og eitt það mál sem við höfum hvað harðast barist fyrir. Framsóknarflokkurinn ítrekar stuðning við þá stefnu okkar í sínum nýju landsfundarplöggum og þess vegna hlýtur hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins að gera grein fyrir því í hvaða berhögg sú ályktun gengur við niðurstöðu stjórnarskrárnefndarinnar og aftur í berhögg við vatnalagafrumvarpið sem við erum að fjalla um í dag. Við erum að fjalla um breytingar á vatnalögunum og ráðherrann notaði sitt tækifæri hérna áðan og ítrekaði stuðning sinn við vatnalagafrumvarpið í heild sinni. Hann fann því bókstaflega ekkert til foráttu og sagði, virðulegi forseti, að verið væri að færa vatnalögin til nútímans. Sem sagt, einkavæðingin var orðin að nútímavæðingu hjá hæstv. landbúnaðarráðherra. Það var allt og sumt. Þetta undarlega reiptog á milli ráðherranna tveggja um þennan anga vatnalaganna kemur núna inn í þingið rétt fyrir þinglok á þessu kjörtímabili eftir að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur beðið landbúnaðarnefnd að taka af sér þennan beiska kaleik og flytja þetta mál til að spara honum sneypuförina, til að spara honum þá smán að standa frammi fyrir þinginu og biðja um breytingar á vatnalögunum eftir það samkomulag sem var gert til að klára málið á sínum tíma. Í raun var verið að losa ríkisstjórnina úr mikilli kreppu. Ríkisstjórnin hafði að lokum frumkvæði að því að ljúka málinu þannig að lögin tækju ekki gildi fyrr en tveimur árum eftir að þingið afgreiddi þau, sem er núna í vor.

Hæstv. ráðherra landbúnaðarmála og varaformaður Framsóknarflokksins opnar því mikla ormagryfju og opinberar hver staða mála er í auðlindamálunum almennt og rifjar að sjálfsögðu upp og kemur aftur með inn í þingið öll þau harkalegu átök sem urðu í kringum vatnalagamálið allt saman, en þar var tekist á um algert grundvallaratriði sem var eignarhaldið á vatninu. Stjórnarandstöðuflokkarnir fögnuðu þeim áfangasigri í málinu að ná því í gegn að gildistöku laganna yrði frestað fram yfir kosningar. Eftir fall ríkisstjórnarinnar í vor gefst nýrri ríkisstjórn, sem verður vonandi undir forustu okkar jafnaðarmanna, færi á að breyta þessum lögum gagngert þannig að eignarhaldið á vatninu verði sameign allra landsmanna en ekki séreign örfárra því það vita allir að vatnið verður gífurlega verðmæt auðlind bara á allra næstu árum, ég tala ekki um áratugum. Vatnsskortur blasir við í heiminum og neysluvatn sem er búið að vinna og tappa á flöskur verður gífurlega verðmæt auðlind rétt eins og olían og þær allra verðmætustu auðlindir. Vinnslan, fullvinnsla og sala á vatni með því sem við erum að gera núna, að koma vatninu undir séreign og festa séreignina á vatninu, er verið að færa gríðarleg verðmæti sem skapast á næstu áratugum í hendur fárra einstaklinga, rétt eins og gert var með kvótann á sínum tíma. Þessi vatnalagabreyting sem nú kemur inn í þingið undir þessum formerkjum hlýtur að draga fram rétt fyrir kosningar umræðu um auðlindamálin almennt. Hvernig fór fyrir sjávarútvegsmálunum? Hvernig fór fyrir eignarhaldinu á kvótanum? Sem er líklega búið að rammfesta svoleiðis núna um 18 árum eftir að frjálsa framsalið var heimilað, kvótinn hefur gengið kaupum og sölum. Þeir sem fengu kvótanum úthlutað upphaflega, margir hverjir, eru búnir að selja hann og auðgast gífurlega, aðrir eru búnir að kaupa og skuldsetja sig. Heilu byggðarlögin eru rústir einar út af kvótakerfinu eingöngu.

Þegar veiðireynslunni og kvótasetningunni var deilt á þá eina sem höfðu átt útgerð en ekki á fólkið í landinu, fólkið sem vann fiskinn, mennina sem voru á skipunum og veiddu fiskinn — að sjálfsögðu var kvótasetningin og frjálsa framsalið eitthvert mesta óréttlætismál íslenskrar stjórnmálasögu. Það er alveg á hreinu, enda hafa deilurnar um sjávarútvegsmálin verið nánast látlausar þó það hafi kannski hægt á því allra síðustu ár, enda töldu margir að fyrst ekki náðist að breyta þessu fyrir síðustu kosningar yrði erfitt að gera það seinna því málið verður alltaf flóknara og flóknara af því að kvótinn var gerður að séreign. Alveg á sama hátt er verið að gera vatnið að séreign núna. Nú er verið að búa í haginn fyrir að í framtíðinni, eins og ég sagði áðan, verði vatnið ómetanleg auðlind, algerlega. Þeir sem búa yfir miklum vatnslindum og vatnsbólum og þeir sem búa yfir þeirri auðlind eru að sjálfsögðu handhafar auðæfa sem er erfitt að verðsetja hér og nú.

Vatnsskortur næstu áratuga víða um heim er að sjálfsögðu mjög alvarleg þróun og vandséð að menn nái að sporna mikið við því. Því hefur verið spáð af mörgum af okkar færustu fræðimönnum og vísindamönnum í heiminum að stríðsátök næstu ára og áratuga snúist um vatnið eins og þau hafa snúist um olíuna á síðustu áratugum, innrásirnar í Írak og allar þær hörmulegu niðurlægingar þar sem Bandaríkjamenn hafa farið í aftur og aftur. Þar er barist um auðlindir að miklu leyti þó svo það sé gert undir yfirskini mannréttindabaráttu o.s.frv. þá er að sjálfsögðu verið að takast á um gríðarlegar auðlindir. Vatnið er að verða að slíkri auðlind og með því að séreignarvæða og einkavæða vatnið er að sjálfsögðu verið að stíga mjög dramatísk og alvarleg skref inn í framtíðina. Þess vegna er kannski fagnaðarefni að hæstv. landbúnaðarráðherra ætli að koma þessu máli kannski frekar fyrirhafnarlítið í gegnum þingið núna. Kannski er ágætt að það var gert til að þinginu gæfist tækifæri til að ræða málið aftur svo skömmu fyrir kosningar. Það er ágætt að rifja upp grundvallarmálin þegar kemur að kosningum svo að yfirborðsmennskan og auglýsingaskrumið síðustu vikurnar fyrir kosningar villi ekki sýn heldur hafi þeir sem ætli sér að taka ábyrga afstöðu í kosningum tækifæri til að rifja upp grundvallaratriðin.

Hver er afstaða flokkanna til auðlindamálanna? Ætli það sé ekki stærsta einstaka málið í samfélagsstjórnmálum okkar? Framsóknarflokkurinn segir eins og ég gat um áðan í glænýjum og brakandi ferskum drögum að landsfundarályktun, með leyfi forseta: „Auðlindir landsins … eru í sameign íslensku þjóðarinnar.“ Þetta stendur hér, ég var að prenta þetta út fyrir hálftíma síðan. Þetta eru glænýjar ályktanir og á undan stendur meira að segja „Að í stjórnarskrá standi:“ Þetta eru því bein fyrirmæli til stjórnarskrárnefndarinnar sem hv. þingmenn á borð við Össur Skarphéðinsson og fleiri hafa verið að vinna í og geta gert okkur betur grein fyrir jafnvel síðar í umræðunni í dag ef svo vel vill til en þetta er algert grundvallarmál.

Á sama degi og Framsóknarflokkurinn endurtekur vatnalagavitleysuna, kemur hér inn með breytingartillögu við vatnalögin, einkavæðinguna á vatninu, þá gefur hann út drög að ályktunum fyrir 29. flokksþing framsóknarmanna 2.–3. mars 2007, þáhljóðandi ályktun sem ég las áðan um auðlindir landsins og að það skuli standa í stjórnarskrá að þær séu sameign íslensku þjóðarinnar, sameignin sem kveðið er á um á landsfundinum. Fyrir því er svo barist blóðugri baráttu á Alþingi sama dag að hún sé gerð að séreignarréttindum, vatnið sé einkavætt, ein af okkar mestu og verðmætustu auðlindum sé einkavædd og færð undir séreign. Á sama tíma heldur flokkurinn þessu fram gagnvart félagsmönnum sínum og íslensku þjóðinni. Þess vegna hlýtur hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður flokksins, Guðni Ágústsson, að gera þinginu grein fyrir hvort skuli standa, hvoru fólk skuli trúa. Hverju eiga kjósendur að trúa og hverju eiga hans eigin flokksmenn að trúa? Er hann að blekkja sína eigin flokksmenn með þessum ályktunardrögum sem hann er að dreifa um í dag á netinu og víðar? Er það blekking? Af því að sama daginn kemur hann í ræðustól og segir að einkavæðingin á vatninu hafi verið nútímavæðing á 70 ára gömlum lögum, ósköp saklaust og einfalt mál, bara nútímavæðing, sagði hann. Verið sé að færa gömul lög til nútímans. Það var verið að einkavæða vatnið, virðulegi forseti. Það var ekki verið að nútímavæða nokkurn skapaðan hlut. Það var ekki nútímavæðing að heimila framsalið á kvóta, á heimildinni til að sækja fiskinn. Að gera það að séreignarrétti og þykjast svo ætla að berjast fyrir því og binda það í stjórnarsáttmála að það eigi að tryggja sameign þjóðarinnar á auðlindinni í stjórnarskrá, að það sé í stjórnarsáttmála. Svo er að sjálfsögðu lúffað fyrir Sjálfstæðisflokknum sem virðist ekki ætla að skipta um stefnu í þessu máli, því miður. Sjálfstæðisflokkurinn boðaði á landsfundi fyrir mörgum árum sátt um sjávarútvegsmál. Sú sátt gekk aldrei eftir, enda voru þau mál mjög hávær fyrir fjórum árum. Kannski verða þau það aftur núna, það er kannski hið besta mál, vonandi. Auðlindamálin almennt.

Ég held að það besta sem gæti gerst væri að kosið yrði um auðlindamálin við kosningarnar í vor. Þau mál eru mjög hávær. Flokkarnir yrðu látnir segja svart á hvítu hver sé stefna þeirra. Er það stefna Framsóknar sem er lögð fyrir flokksþingið um sameignarákvæði í stjórnarskrá um sameign allra auðlinda íslensku þjóðarinnar eða einkavæðingin á auðlindunum sem Framsóknarflokkurinn berst fyrir á Alþingi? Hvor stefnan er rétt eða hefur flokkurinn kannski báðar stefnurnar, aðra þegar hentar hér og hina þegar hentar þar? Ég veit það ekki. Hann hefur sjálfsagt svör við því á reiðum höndum, hæstv. ráðherra og varaformaður flokksins sem hefur kannski skrifað þennan texta og unnið hann í þennan búning? Hver veit. Hann hlýtur alla vega að gerþekkja hann því hann fjallar um auðlindamálin í þinginu sama dag og ályktunin er gefin út.

Við erum að fjalla um grundvallarmál. Hæstv. landbúnaðarráðherra opnaði ormagryfju í morgun þegar hann kom inn með þessa breytingartillögu við vatnalögin sem átti að smygla í gegnum þingið sem sakleysislegu máli um landbrot, reyna að fá landbúnaðarnefnd til að bera hitann og þungann af málinu, taka smánina af hæstv. landbúnaðarráðherra eftir skæklatogið í ríkisstjórninni þegar þáverandi hæstv. iðnaðarráðherra kom upp þeirri sársaukafullu stundu sem hæstv. landbúnaðarráðherra upplifði í þeirri umræðu, að hafa hirt frá honum þetta verkefni út úr því með vatnalögunum. Þess vegna hefði nú verið eðlilegra af því að hann lýsti yfir þeim nýja velvilja, þeim nýtilkomna velvilja sem væri núna í iðnaðarráðuneytinu í garð hæstv. landbúnaðarráðherra, að hæstv. iðnaðarráðherra hefði þá flutt þetta mál sem breytingartillögu við vatnalög og það væri ekki verið að flytja breytingartillögu við málið undir allt öðru yfirskini, undir stjórn allt annars ráðherra o.s.frv.

Þetta er nefnilega hið dapurlegasta mál að öllu leyti hvað varðar aðkomu ríkisstjórnarinnar að því, en um leið gefur leiðrétting á verkefnahnuplinu á milli framsóknarráðherranna Alþingi færi á að ræða auðlindamálin almennt og yfirleitt. Hvað er með gjaldtöku af nýtingu auðlindanna? Auðvitað á nýtingarrétturinn að vera skýr og til staðar hvort sem þar er á vatninu, fallvötnunum, fiskinum eða öðrum takmörkuðum auðlindum sem við Íslendingar eigum og eigum að eiga allir saman. Það er algert grundvallaratriði. Það er sú stefna sem Framsóknarflokkurinn er að svíkja með vatnalögunum, með einkavæðingunni á vatninu. Það er sameignin á auðlindunum okkar. Hver á gjaldtakan að vera o.s.frv.? Það er frekar það sem við ættum að ráða fram úr núna. Hvernig á að haga fyrir nýtingu á þessum stóru og verðmætu auðlindum eins og vatninu á næstu áratugum? Hver á gjaldtakan að vera? Hver á arður samfélagsins að vera o.s.frv.? Í staðinn fyrir að undirstrika og endurtaka átökin um vatnalögin, einkavæðinguna á vatninu 70 dögum fyrir kosningar, koma með það inn í þingið. Draugurinn er vakinn upp. Aftur er tekist á um einkavæðingu vatns á hinu háa Alþingi og núna undir forustu hæstv. landbúnaðarráðherra sem sama dag flytur ályktun um það á landsfundi sínum að í stjórnarskrá standi að allar auðlindir séu sameign íslensku þjóðarinnar. Boltinn er hjá þér, hæstv. landbúnaðarráðherra.