133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:21]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það góða við hv. þingmann er að hann hefur mynduglega rödd og ábúðarfullan svip, kannski trúa því einhverjir að hann segi satt þess vegna. Allir sem fylgjast með umræðunni vita að þetta var sama blekkingin og hjá Vinstri grænum fyrr í umræðunni. Auðvitað var aðeins verið að endurskoða vatnalögin, þau hafa ekki verið einkavædd, það er rangt. Vatnið er í eigu þjóðarinnar og er dýrmætasta auðlind Íslendinga. Hv. þingmaður er að mestu leyti vatn, hátt í 90% ef ég veit rétt. Vatnið er undirstaða lífsins og mikilvægasta auðlind sem við eigum saman, Íslendingar, óþrjótandi vatn sem enginn einkaréttur fellur á nokkru sinni. Hins vegar fara bændur og jarðeigendur auðvitað með eignarrétt á sínum jörðum.

Hv. þingmaður ræðst mjög að auðlindamálinu. Framsóknarflokkurinn er þeirrar skoðunar og það er í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar að sjávarútvegsauðlindin kringum Ísland, hafið, sé sameign íslensku þjóðarinnar og það á að binda það í stjórnarskrá. Fyrir því er barist af okkar hálfu. Fyrir liggur líka að á síðustu árum var þjóðlendan, miðhálendið, skýrt með löggjöf í samstarfi núverandi flokka og gert að sameign allra Íslendinga, þannig að við höfum unnið heilt að þessu.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir að tala um glænýjar og brakandi ályktanir Framsóknarflokksins sem umræða hefst um á flokksþingi á morgun. Þetta er hárrétt hjá hv. þingmanni, þar kemur margt merkilegt fram. Ég hef aðeins sagt að stjórnarandstöðuþingmenn, og ég hygg þar á meðal hv. þm. Björgvin Sigurðsson, hafi verið þess fýsandi að leiðrétta málið sem snýst fyrst og fremst um landbrot en ekki um vatn, (Forseti hringir.) en að þessi mál séu á þeim stað sem þau eiga að vera samkvæmt stjórnarráðslögunum.