133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[14:26]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Við förum yfir mál frá hæstv. landbúnaðarráðherra og ég er að reyna að átta mig á þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað. Fyrir hádegishlé fór hv. þm. Jón Bjarnason um víðan völl varðandi frumvarpið og það var útilokað að fá neinn botn í það hvað Vinstri grænir vilja í umhverfisumræðunni, það var ekki með nokkrum hætti hægt að átta sig á því hvað þeir vilja hvað þetta varðar.

Mér fannst hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson að mörgu leyti tala ósköp svipað, út og suður. Á hefðbundinn hátt var þetta frasakennd ræða, sömu frasarnir síendurteknir sem segja okkur ekki neitt um málið, um málefnið. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvaða breytingar hann vilji gera. Hvernig vill hv. þingmaður í raun að við höfum rammalöggjöf um nýtingu vatns og vatnsafls? Fram hefur komið úr þessum ræðustól að hv. þingmaður vill ekki nýta vatnsaflið til virkjana og eltir þar Vinstri græna, en það er ýmislegt annað sem þarf að hafa stjórn á varðandi vatnið. Það þarf að hafa löggjöf og stjórn á vatninu, það þarf að nýta vatnið, vatnsaflið, og á ýmsan hátt þarf að sjá til þess að vatnið nýtist landinu, landbúnaðinum og þjóðinni til heilla. Hvernig vill hv. þingmaður sjá það? Ég vil gjarnan fá málefnaleg svör en ekki svör eins og Vinstri grænir gáfu sem fóru að tala um Ísrael hvað mínar spurningar vörðuðu.