133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[15:22]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að láta alla njóta vafans. Ég hef óskað eftir því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður Framsóknarflokksins, staðfesti að það sé einbeitt stefna Framsóknarflokksins að ná inn í stjórnarskrána þessu ákvæði um sameign á sjávarauðlindinni. Hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að það sé einbeittur vilji Framsóknarflokksins að gera það

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það er ekki mitt heldur þeirra sem enn teljast til Framsóknarflokksins að ráða því hvað gerist á flokksþingi Framsóknarflokksins. En ég hef sem þátttakandi í íslenskum stjórnmálum fullan rétt til að ganga eftir því hjá forustu stjórnmálaflokks hvort hún hyggist efna loforð sín, og hæstv. ráðherra gekk ekki nema hálfa leið að því. Hann sagði: Þetta er einbeittur vilji okkar, en hann svaraði ekki spurningunni um það hvort Framsóknarflokkurinn ætlaði að gera það áður en þingi sleppti núna. Þá verð ég að hressa upp á minni hæstv. ráðherra.

Sú yfirlýsing sem var samþykkt inn í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar fól það í sér að á þessu kjörtímabili, þ.e. áður en þau fjögur ár eru liðin frá því að núverandi ríkisstjórn hóf sína fyrstu göngu, yrði þetta samþykkt á Alþingi og tekið upp í stjórnarskrána. Það var loforðið, og spurning mín er þessi: Verður staðið við þetta loforð? Við skulum leyfa hæstv. ráðherra að njóta alls þess veldis sem hann hefur á flokksþingi Framsóknarfokksins og síst skal ég á þessu stigi sletta mér fram í það, en ég áskil mér rétt til að ræða það hér eftir helgina.

Ég hef hins vegar sem alþingismaður rétt til þess að spyrja hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem situr hér á þinginu með mér: Mun hann standa við þau orð að stjórnarskránni verði breytt að þessu leytinu (Forseti hringir.) áður en þing er úti?