133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[15:24]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mikil og söguleg yfirlýsing hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formanni Framsóknarflokksins. Hann lýsti því hér yfir að Framsóknarflokkurinn mundi beita öllu sínu afli til að ná því fram á þessu Alþingi að stjórnarskránni yrði breytt þannig að sameignarákvæði um sameiginlega þjóðareign á sjávarauðlindinni yrði tekið upp í stjórnarskrána. Það eru fimm eða sex þingfundadagar þangað til þingið er úti Við vitum auðvitað sem höfum komið að þessum málum að Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið einn gegn því að stjórnarskránni yrði breytt með þessum hætti. Þessi yfirlýsing hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra felur því í sér að hann hefur í reynd lofað því að ef tillaga kemur fram um þetta á þinginu muni Framsóknarflokkurinn beita öllu afli sínu til þess að hún nái fram að ganga.

Hann verður látinn standa við þau orð. Það mun án efa koma fram tillaga á þessu þingi um þessa breytingu á stjórnarskránni og þá munum við fá að njóta afls Framsóknarflokksins sem væntanlega mun styðja þá tillögu, hvaðan sem hún kemur, en ég lýsi því líka yfir að ef hún kemur frá Framsóknarflokknum verður hún studd af stjórnarandstöðunni. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Það má svo spyrja í lok þessarar ræðu, herra forseti: Hvað verður þá um garminn hann Ketil? Enginn veit þá hvað verður um það sem eftir er af þessari ríkisstjórn því að það er auðvitað alveg ljóst að hér var hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra að gefa tímamótayfirlýsingu sem varðar samstarf Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins það sem eftir lifir þessa kjörtímabils. Nú munum við sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn lætur beygja sig.