133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[15:47]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Heldur var þetta aumleg ferð hjá hæstv. landbúnaðarráðherra hingað í ræðustól. Hann kemur hingað og ætlar að reyna að telja okkur trú um að Íslendingar hafi verið settir á þennan lista án þess að nokkur hafi verið spurður að því. Telur hæstv. landbúnaðarráðherra virkilega að Ísland sé þrátt fyrir þessa ríkisstjórn slík fótaþurrka hjá Bandaríkjamönnum að þeir hafi gert það án þess að hafa spurt utanríkisráðherra þjóðarinnar? Að sjálfsögðu ekki. Ísland var sett á þennan lista með fullu samþykki Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins þá, og Davíðs Oddssonar, sem þá var forsætisráðherra. Þetta var löglaust, þetta var siðlaust og þetta var í andstöðu við vilja þjóðarinnar. Mér er nær að halda að þetta hafi verið í fullkominni andstöðu við vilja Framsóknarflokksins eins og hann var á þeim tíma en hann tók til fótanna í kjölfar þessa og flýði forustuna og þess vegna stendur hún eftir ein og berskjölduð með það fylgi sem hún hefur í dag.

Herra forseti. Colin Powell varð það á að flytja kolrangar upplýsingar inn í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Eftir að hann hætti störfum og lét af störfum sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna baðst hann afsökunar á Íraksstríðinu. Hann var nægilega mikill maður til þess að segja að það væri versti bletturinn á ferli sínum að hafa orðið þetta á og hann baðst afsökunar á því. Ég minnist þess líka að breska biskupakirkjan baðst afsökunar fyrir hönd Breta. Er ekki komið að því að forusta Framsóknarflokksins lýsi því yfir að þetta hafi verið mistök og biðjist einfaldlega afsökunar á því að hafa leitt þessa hneisu yfir íslenska þjóð og hafa með vissum hætti gert hana siðferðislega skuldbundna þeirri sekt sem Bandaríkin og Bretar bera í þessu máli?