133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[15:58]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er langt síðan ég hef heyrt annan eins kattarþvott og þann sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafði uppi í svari sínu. Nú heldur hann því fram að þetta hafi allt saman verið að frumkvæði Bandaríkjamanna, að Ísland komst á þennan lista, og þetta hafi verið fréttatilkynning. Hvers vegna stóð þá fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins, Halldór Ásgrímsson, hérna dögum og vikum saman við að verja það að Ísland væri á þessum lista? Af hverju sagði hann aldrei að þetta væri fréttatilkynning? Af því að þetta er tóm vitleysa, uppspuni og helber tilbúningur. Auðvitað var það þannig að Ísland var sett á þennan lista með fullkomnu samþykki tveggja manna, Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, formanns Framsóknarflokksins, og Framsóknarflokkurinn hleypur ekki frá þeirri ábyrgð sinni. Hann ber jafnmikla ábyrgð og Sjálfstæðisflokkurinn í þessu máli og honum væri sæmst að koma hingað og biðjast afsökunar á því. Mér er sæmst að halda því fram að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti að biðjast afsökunar á því að bera þessa vitleysu fram. Þetta er allt annað en það sem þeir hafa áður haldið fram og þetta er aumlegt yfirklór.