133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:17]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Hér hefur orðið nokkur umræða um það hvort Ísland sé yfir höfuð á einhverjum lista hinna viljugu þjóða eða ekki, hvort slíkur listi sé yfir höfuð til. Við skulum aðeins staldra við þetta mál.

Ég kom upp í andsvör áðan, virðulegi forseti, vegna þess að mér ofbauð málflutningur formanns Framsóknarflokksins vegna þessa lista. Í millitíðinni brá ég mér fram á gang og þýddi orðrétt úr ensku yfir á íslensku hina svokölluðu stuðningsyfirlýsingu Íslendinga. Ég tel að þýðingin sé nokkuð rétt. Ég held það sé rétt að ég lesi hana upp orðrétta á íslensku þannig að hún fari inn í þingtíðindi og þannig að formaður Framsóknarflokksins og starfandi utanríkisráðherra, í fjarveru hæstv. utanríkisráðherra, geri sér grein fyrir því hvernig yfirlýsingin var orðuð.

Nú skuluð þið heyra, með leyfi forseta:

Bandaríkin telja nú að öryggi þeirra sé alvarlega ógnað vegna aðgerða og árása hryðjuverkamanna og vegna ýmissa hótana frá löndum sem stjórnað er af einræðisherrum og harðstjórum. Bandaríkin telja að stuðningur frá okkar litla ríki skipti máli. Yfirlýsingin, sem gefin er út af ríkisstjórn Íslands vegna Íraksdeilunnar, segir að við ætlum að viðhalda þeirri nánu samvinnu sem við höfum átt við okkar volduga bandamann í vestri.

Í fyrsta lagi felur þetta í sér leyfi til að fljúga um íslenskt flugstjórnarsvæði. Í öðru lagi afnot af Keflavíkurflugvelli ef nauðsyn krefur. Í þriðja lagi að við munum taka þátt í uppbyggingu í Írak að stríði loknu. Í fjórða lagi að við lýsum stuðningi við að ályktun 1441 taki gildi eftir fjögurra mánaða tafir.

Undirritað: Davíð Oddsson forsætisráðherra, 18. mars 2003.

Virðulegi forseti. Hvað er þetta annað en eindregin stuðningsyfirlýsing? Hvað felst í þessum orðum: Bandaríkin telja að stuðningur frá okkar litla ríki skipti máli? Gefur þetta ekki til kynna að Bandaríkjamenn hafi haft samband við íslensk stjórnvöld, við ríkisstjórn Íslands, og beðið um stuðning við innrásina í Írak? Mér finnst orðalagið sanna að Íslendingar, eða réttara sagt ríkisstjórnin og Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur, hafi brugðist við beiðni frá Washington um það að Ísland lýsti yfir stuðningi við innrásina.

Hér stendur líka:

Yfirlýsingin, sem gefin er út af ríkisstjórn Íslands vegna Íraksdeilunnar, segir að við ætlum að viðhalda þeirri nánu samvinnu sem við höfum átt við okkar volduga bandamann í vestri. — Gefin er út af ríkisstjórn Íslands.

Hvað segir þetta okkur? Þetta er 18. mars, tveimur sólarhringum áður en herirnir lögðu af stað í það mikla glapræði sem varð innrásin í Írak, tveimur sólarhringum áður. Þetta segir manni jú, hlýtur að vera, að ríkisstjórn Íslands hafi verið fullkunnugt um það sem til stóð, eða hvað? Var ekki rætt við ráðherra í ríkisstjórn Íslands? Sendi þáverandi hæstv. forsætisráðherra frá sér yfirlýsingar til Washington, tveimur dögum áður en lagt var af stað í hina miklu helför, í nafni allrar ríkisstjórnarinnar án þess að hafa rætt málið við ríkisstjórnina? Getur það verið? Við hljótum, virðulegi forseti, að fá svar við spurningum af þessu tagi því að um grafalvarlegt mál er að ræða.

Hundruð þúsunda liggja í valnum eftir innrásina. Afleiðingarnar hafa verið skelfilegar. Slæmt var ástandið í Írak fyrir stríð en hvernig er það núna? Margfalt verra. Fólk býr við dauða og örkuml, hörmungar upp á hvern einasta dag. Það er ekki rétt, sem formaður Framsóknarflokksins reynir að halda fram, að aðeins sé um ómerkilega fréttatilkynningu frá Hvíta húsinu að ræða, það er ósatt. Það er hrein og klár stuðningsyfirlýsing sem birt er á heimasíðu Hvíta hússins og hún hefur verið þar mjög lengi, alveg frá 26. mars árið 2003. Þarna eru 42 þjóðir. Kannski ekki mjög gæfulegur félagsskapur, við erum á lista með löndum eins og Albaníu, Aserbaídsjan, Kólumbíu, Dóminíska lýðveldinu, El Salvador, Erítreu, Eistlandi, Georgíu, Hondúras, Litháen, Lettlandi, Makedóníu, Mongólíu, Panama, Rúanda og Úkraínu. Þetta er nú m.a. félagsskapurinn sem við erum í á þessum lista. (Gripið fram í.) Þetta er náttúrlega mjög traust og afskaplega sterkt út á við og enn er þetta aðgengilegt fyrir allan heiminn á heimasíðu Hvíta hússins.

Ég hef aldrei, virðulegi forseti, frá því þessi skelfilega nótt rann upp — og ég man vel eftir þeim geig sem settist að manni þegar maður horfði á beinar útsendingar af því þegar herirnir voru að leggja af stað inn í Írak. Ég man ekki til þess að nokkru sinni á þeim fjórum árum sem eru liðin, rétt tæpu, hafi ríkisstjórnin og þeir flokkar sem bera ábyrgð á þessari yfirlýsingu sýnt minnstu viðleitni til þess að draga hana til baka, flokkarnir sem bera að vissu leyti siðferðislega ábyrgð á þeim skelfilegu voðaverkum sem unnin hafa verið í Írak undanfarin fjögur ár. Það hefði þó verið hægur vandinn að gera það vegna þess að það hefur með óyggjandi hætti komið fram að innrásin var byggð á lygum og blekkingum.

Við vitum það í dag að Power Point sýningin sem Colin Powell hélt fyrir öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var blekkingarleikur einn. Hann veit það sjálfur og hann hefur harmað það. Fleiri Bandaríkjamenn hafa harmað að hafa stutt innrásina. Við getum nefnt öldungardeildarþingmanninn John Edwards sem hefur hreinlega beðist afsökunar á því að hafa greitt henni atkvæði sitt á sínum tíma. Hann vill nú verða forseti Bandaríkjanna. Og það eru fleiri.

Þetta mál á eftir að draga dilk á eftir sér, ekki bara í bandarískum stjórnmálum, ekki bara í alþjóðastjórnmálum heldur líka í íslenskum stjórnmálum. Það sem var gert var ófyrirgefanlegt. Það var ófyrirgefanlegt að setja okkur, íslenska þjóð, á lista yfir hinar svokölluðu viljugu þjóðir. Það var ófyrirgefanlegt af ríkisstjórninni að senda frá sér yfirlýsinguna sem ég las í upphafi ræðu minnar. Það var ófyrirgefanlegt að þetta skyldi gert án þess að haft væri hið minnsta samráð við Alþingi Íslendinga því að við sem hér sitjum í umboði þjóðarinnar berum að sjálfsögðu ákveðna ábyrgð líka. Það er að sjálfsögðu full ástæða til að harma það að þeir sem sátu á Alþingi fyrir réttum fjórum árum, (Forseti hringir.) undir lok síðasta kjörtímabils, skuli ekki hafa verið upplýstir um þau myrkraverk sem virðast hafa verið framin í Stjórnarráðinu og í utanríkisráðuneytinu.