133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:46]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það vakti athygli mína að hv. þingmaður greindi frá því að hann hefði á sínum tíma setið í ríkisstjórn og þar hefði sú ákvörðun um stuðning við innrásina í Írak verið kynnt með eðlilegum hætti og nákvæmlega sama hætti og aðrar skyldar ákvarðanir.

Hæstv. landbúnaðarráðherra tók til máls fyrr í umræðunni og hann sagði að það væri af og frá að ríkisstjórnin hefði átt aðild að þeirri ákvörðun. Hæstv. landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, Guðni Ágústsson, lýsti því yfir að þetta mál hefði verið rætt eftir að ákvörðun var tekin af hálfu formanns Framsóknarflokksins og formanns Sjálfstæðisflokksins. Hér ber eitthvað á milli, frú forseti, og mér þykir því rétt að inna hv. þingmann eftir því í krafti vitneskju hans frá því að hann sat við ríkisstjórnarborðið hvort hann telji að ákvörðun hafi verið kynnt með eðlilegum hætti í fyrsta lagi og í öðru lagi hvort hann líti svo á að hann hafi verið aðili að þeirri ákvörðun með þátttöku í þeirri kynningu sem þarna var. Í þriðja lagi, var þetta ekki löngu eftir að búið var að taka þá afdrifaríku og skammarlegu ákvörðun?