133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:48]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta mál er mjög einfalt þó að reynt hafi verið að gera það flókið. Þessi ákvörðun var kynnt á fundi í ríkisstjórninni um það leyti sem innrásin var gerð. Hún var kynnt og henni var ekki andmælt í ríkisstjórninni. Þess vegna tel ég að ríkisstjórnin hafi vitað um þessa ákvörðun. Hún var tekin, en hún var kynnt ríkisstjórninni og var ekki andmælt þar. Og ég verð að segja það sem mína skoðun að þær ofsóknir, sem ég kalla bara ofsóknir, á hendur fyrrverandi utanríkisráðherra í þessu efni, sem hefur borið hitann og þungann af þeim, eru ekki til sóma og ég er fús til þess að bera minn hluta af þeirri ábyrgð með honum vegna þess að ég mótmælti ekki ákvörðuninni á sínum tíma. Ég tel mig alveg rísa undir því.

Ég viðurkenni það jafnframt að ég hafði ekki þær upplýsingar sem núna liggja fyrir og það höfum við framsóknarmenn margsinnis sagt.