133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:49]
Hlusta

Flm. (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég finn til nokkurrar hluttekningar með hv. þingmanni að hafa setið í ríkisstjórn þar sem þessi ákvörðun var kynnt eftir að búið var að taka hana. Það var gert eftir að forustumenn ríkisstjórnarinnar höfðu samþykkt að Ísland yrði sett á lista þeirra þjóða sem studdu innrásina. Hins vegar verð ég að segja að mér finnst sem það hefði verið mannsbragur af hálfu hans að standa þar upp og setja hnefann í borðið og segja: Ég mótmæli. Mér finnst ákaflega merkilegt að heyra það hér hjá hv. þingmanni að enginn hafi mótmælt þessu í ríkisstjórninni. Er hv. þingmaður að koma því á framfæri að varaformaður Framsóknarflokksins, sem á þeim tíma og síðar og aftur hér í dag lýsti því yfir að hann hefði með engu móti komið að þeirri ákvörðun, hefði á þeim tíma getað sett hnefann í borðið og mótmælt því? En það gerði hæstv. landbúnaðarráðherra ekki. Það má þá kannski segja að hv. þingmaður hafi verið að gefa það til kynna að í þessu máli hefur hæstv. landbúnaðarráðherra verið að sigla undir fölsku flaggi, því hann hefur mánuðum saman, ef ekki missirum saman látið að því liggja að hann hafi frá upphafi vega verið á móti þessari ákvörðun en hann hafi á engu stigi máls áður en ákvörðunarferli sleppti átt kost á því að koma því viðhorfi sínu á framfæri. Ég hef staðið í þeirri trú að forustumenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki lagt í að kynna þetta mál í þingflokkum ríkisstjórnarinnar og ekki heldur í ríkisstjórninni vegna þess að þeir töldu sig ekki hafa fulltingi sinna flokka og ekki vald á málinu. Nú kemur í ljós að það var rangt hjá mér. Framsóknarflokkurinn stóð heill og óskiptur að þessari ákvörðun. Þess þá heldur ætti hann að gangast við mistökum sínum og biðjast afsökunar á þeim eins og forustumenn í stjórnmálum erlendis hafa síðar gert.