133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:52]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson kemur með mjög merkilegar upplýsingar, ég verð að segja það. Hann sagði áðan í ræðu sinni að þetta mál hefði verið kynnt í ríkisstjórninni þann 25. mars að morgni. Hann myndi mjög vel eftir þeim morgni, hann hefði haft miklar áhyggjur og þar fram eftir götunum.

Yfirlýsingin sem ég las upp áðan sem ég hef snarað yfir á íslensku frá Davíð Oddssyni, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, er frá 18. mars. Hún var send Bandaríkjamönnum viku áður en málið var tekið upp í ríkisstjórn Íslands samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Hvíta hússins og þar er sagt beinum orðum, virðulegi forseti: Yfirlýsingin sem gefin er út af ríkisstjórn Íslands.

Hvað var hér á ferðinni? Við verðum að fá skýr svör, virðulegi forseti. Þetta mál er svo alvarlegt að það hlýtur að kalla á rannsókn og yfirheyrslur, jafnvel fyrir þingnefnd. Var hæstv. þáverandi forsætisráðherra og kannski líka hæstv. utanríkisráðherra að senda frá sér yfirlýsingar um þetta, um aðild Íslands að stríði í nafni ríkisstjórnarinnar, að henni forspurðri, viku áður en málið var lagt fyrir ríkisstjórn Íslands, einum og hálfum til tveimur sólarhringum áður en innrásin hófst? Getur það verið? Liggur svona í málinu? Miðað við þær upplýsingar sem nú hafa komið fram sýnist mér að svo sé. Héðan hafi verið send yfirlýsing í nafni ríkisstjórnarinnar viku áður en ríkisstjórnin var upplýst um málið. Virðulegi forseti, ekki batnar það.