133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:56]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sá sem hér stendur er ekki að leika nokkurn skapaðan hlut. Ég er hins vegar að benda á að hér virðast vera alvarlegar gloppur í málflutningi.

Yfirlýsingin er send Hvíta húsinu 18. mars. Innrásin hefst rétt fyrir miðnætti 19. mars. Hv. þm. Jón Kristjánsson segir að málið hafi verið kynnt fyrir ríkisstjórninni og þar hafi verið tekin ákvörðun 25. mars. Þessi svokallaði listi vegna aðgerðarinnar „Frelsi Íraks“ er lagður út á heimasíðu Hvíta hússins 26. mars, daginn eftir ríkisstjórnarfundinn á Íslandi. „For Immediate Release“ birtist strax 26. mars. Þá er innrásin búin að standa yfir í tæpa viku, herirnir eru nær komnir til Bagdad, orrustan geisar sem aldrei fyrr, mannfallið er mikið og hefur ekki minnkað síðan og enginn veit hvernig þessar hörmungar munu enda.

Mig langar líka til að koma inn á annað, virðulegi forseti, þar sem hv. þm. Jón Kristjánsson réttlætir þessa innrás með því að það hefði verið einræðisherra í Írak sem hugsanlega hefði ráðið yfir kjarnorkuvopnum. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, ef þetta á að gilda sem ástæða til innrásar í fullvalda ríki vítt og breitt um heiminn, þá spyr ég: Hvers vegna í ósköpunum höfum við ekki gert innrás í Pakistan? Þar er einræðisherra sem rændi undir sig völdum, Pervez Musharraf. Ég var að ljúka við að lesa ævisögu hans í gær sem er nýkomin út. Pakistan er með kjarnorkuvopn, hann er einræðisherra. Pakistan hefur meira að segja dreift upplýsingum um kjarnorkuvopn til landa eins og Norður-Kóreu. Hvers vegna í ósköpunum eru Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ekki lagðir af stað í herferð til Pakistans?