133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[16:58]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil segja að þessi lógík er dálítið sérkennileg en hún passar við þann málflutning sem hefur verið síðustu fjögur árin í þessu máli. Saddam Hussein hafði verið almennilegheitamaður og jafnréttissinni og þar fram eftir götunum. Það er málflutningurinn sem hefur verið. Ég er ekki að réttlæta þetta árásarstríð. (Gripið fram í.) Það er margbúið að segja að þetta var byggt á röngum upplýsingum og ef menn hefðu haft þær upplýsingar í höndunum hefði ákvörðunin vafalaust verið á annan veg. Þessi styrjöld var byggð á röngum upplýsingum en ákvörðunin var kynnt og þessi margumtalaði listi var einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna og það var ekki kynnt á ríkisstjórnarfundi að við værum á neinum lista heldur er það nákvæmlega eins og þingmaðurinn segir. Listinn birtist 26. mars og er bara einhliða ákvörðun og áróðursplagg Bandaríkjamanna í málinu og var ekki borinn undir ríkisstjórn Íslands og er, eins og fram hefur komið hjá hæstv. iðnaðarráðherra, plagg Hvíta hússins og ber ekki að taka hann sem lögformlegt skjal í þessu máli.