133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:18]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Frú forseti. Það hefur verið mikið rætt um þá þingsályktunartillögu sem liggur fyrir og er til umræðu í dag, og er ekki skrýtið enda um að ræða stórt mál í íslenskum stjórnmálum, alþjóðastjórnmálum og fyrir alþjóðasamfélagið í heild sinni.

Ég verða samt að segja, frú forseti, að mér hefur á stundum þótt umræðan heldur ótrúleg. Mér hefur fundist menn nota þetta grafalvarlega mál til að slá pólitískar keilur, innanríkiskeilur eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra orðaði það í lok þings og í aðdraganda þessara kosninga. Málið er grafalvarlegt fyrir okkur öll, fyrir alþjóðasamfélagið, að ég tali nú ekki um íbúa Íraks. (Gripið fram í: Og …) Það er staðan sem við þurfum að horfast í augu við.

Við framsóknarmenn höfum viðurkennt og tekið fyrir í okkar röðum að um ranga ákvörðun hafi verið að ræða og að ákvörðunin hafi verið mistök. Það hefur formaður okkar flokks gert á okkar vettvangi, á miðstjórnarfundi okkar fyrr í vetur, og það liggur fyrir að við munum ræða málið á okkar vettvangi nú um helgina, á flokksþingi okkar framsóknarmanna. Því finnst mér alveg ótrúlegt að umræðan hér skuli ganga öll út á það að um einhvern kattarþvott sé að ræða fyrir Framsóknarflokkinn.

Ef menn horfa á staðreyndir málsins er það þannig að í fyrsta lagi hefur Framsóknarflokkurinn gengið í gegnum einar alþingiskosningar eftir að þessi ákvörðun var tekin. Var málið okkur þar erfitt. Því er ekki hægt að leyna, ekki einungis erfitt innan okkar raða, heldur líka í kosningabaráttunni allri og æ síðan. Við höfum axlað ábyrgð og ég tel okkur hafa liðið fyrir þessa ákvörðun okkar á sínum tíma, að hafa staðið að henni. Við höfum liðið fyrir hana, vegna þess að hún var líka mistök, og við höfum kannski átt það að vissu leyti skilið. En við þorum að horfast í augu við þetta, viðurkenna þetta og ganga fram fyrir skjöldu með það. Að umræðan öll í dag skuli síðan snúast um Framsóknarflokkinn er ótrúlegt. Ég ætla svo sem ekkert að undanskilja okkur, enda verðum við að axla þá ábyrgð í þessu máli, en að hv. stjórnarandstaða skuli fjalla um málið eins og hún hefur gert í dag finnst mér ótrúlegt. Þetta sýnir að menn eru ekki að tala um þetta út frá einhverjum efnisatriðum eða alvöruatriðum málsins, heldur einungis í pólitískum tilgangi, einungis í þeim tilgangi að koma höggi á Framsóknarflokkinn og formann flokksins, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Það finnst mér mjög alvarlegt og mér finnst það leiðinlegt. Mér finnst það hvorki þessu þingi til sóma né þeim hv. þingmönnum sem hafa tekið þátt í umræðunni.

Það er sannarlega mikilvægt að ræða þessi mál. Eins og ég segi höfum við tekist á um þetta í okkar flokki, innan okkar raða, og það var auðvitað þannig að eins og þjóðin öll veit erum við herlaust land sem hefur ekki viljað lýsa yfir stríði á hendur annarri þjóð. Auðvitað var þetta mál erfitt fyrir Framsóknarflokkinn rétt eins og alla þjóðina. Frambjóðendur í alþingiskosningunum 2003 í okkar röðum lýstu sjálfir yfir andstöðu við málið og þáverandi formaður okkar þurfti að takast á við það innan okkar raða.

Sömuleiðis hefur þetta mál haft áhrif á stjórnmálaferil þeirra aðila sem komu að ákvörðuninni í upphafi. Því verður ekki neitað, það liggur alveg fyrir. (Gripið fram í: Nú?) Bæði Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þáverandi utanríkisráðherra, eru hættir þátttöku í stjórnmálum. (Gripið fram í.) Ég tel að það hafi m.a. verið vegna þessa máls, ég held það. Og ég held að að einhverju leyti fylgi þetta mál þeim og þeirra stjórnmálaferli sem var þó eins og fyrir fyrrverandi formann Framsóknarflokksins langur og glæsilegur og hann átti á margan hátt merkilegan stjórnmálaferil. (MÞH: … Guðni mátti ekki verða formaður?) Þetta hefur líka haft áhrif langt út fyrir íslensk stjórnmál. Þetta hefur sömuleiðis haft áhrif á stjórnmálaferil annarra aðila sem að þessu máli hafa komið í erlendri alþjóðapólitík og nægir þar að horfa bæði til Bretlands og Bandaríkjanna. Við höfum horfst í augu við þessi mistök okkar og viðurkennt þau og nú er mest um vert að halda áfram, við hljótum að þurfa að læra af málinu. Við hljótum að þurfa að læra að sambærilegar ákvarðanir verða aldrei teknar með sambærilegum hætti. Þær hljóta að fara í gegnum þær stofnanir þingsins og stofnanir landsins sem eðlilegt er að svona mál fari í gegnum. Það er alveg greinilegt að umræðan ber merki um herkænsku í aðdraganda kosningabaráttunnar og mér finnst leiðinlegt að sá stimpill sé á málinu. Málatilbúnaðurinn lýsir því ef til vill hv. stjórnarandstöðu rétt.

Frú forseti. Eins og ég sagði er alveg ljóst að það þarf að axla ábyrgð í þessu máli og það tel ég okkur hafa gert og munum eflaust þurfa að gera áfram. Við þorum að ræða um þetta og mér finnst ótrúlegt hvernig stjórnarandstaðan hefur kosið að ráðast á annan stjórnarflokkinn í þessari umræðu en lætur Sjálfstæðisflokkinn alveg í friði. Ég verð reyndar að undanskilja þar tvo þingmenn, svo að ég fari rétt með, bæði hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon vöktu máls á því í ræðum sínum. Ef ég man þetta rétt heyrði ég það ekki í ræðum annarra hv. þingmanna.

Nú, frú forseti, hrannast óveðursskýin aftur upp yfir Miðausturlöndum og það er alveg ljóst að Íslendingar þurfa að fylgjast vel með málum. Við þurfum að ræða það á okkar vettvangi hér með hvaða hætti við viljum taka þátt í þeirri umræðu innan alþjóðasamfélagsins sem fram undan er í þeim málum.

Ég ætla að ljúka máli mínu, enda krefst tíminn þess. Ég vil segja að lokum að það sem skiptir höfuðmáli er að við stöndum við skuldbindingar okkar um að standa að uppbyggingunni í Írak og vonandi fer þeirri óöld sem þar ríkir að ljúka svo að íbúar þess lands geti átt kost á að byggja þar upp lýðræðislegt samfélag og að auðlindir þess lands verði í höndum íbúanna sem þar búa svo að þeir geti ráðstafað þeim og byggt sér frelsi til framtíðar.