133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:26]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var á margan hátt athyglisverð en samt sem áður líka einkennileg ræða. Fyrst hefur Framsóknarflokkurinn vörn sína á því að reyna að gera lítið úr málinu og lítið úr efni þessarar þingsályktunartillögu. Þegar það gengur ekki er reynt að kasta út öðru spili og það er samúðarspilið. Það er reynt að vekja samúð með því að væla yfir því að hér sé verið að djöflast á Framsóknarflokknum en Sjálfstæðisflokkurinn sleppi. Hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir ætti að gera sér grein fyrir því að ástæðan fyrir því að lítið er talað um Sjálfstæðisflokkinn er einfaldlega sú að Sjálfstæðisflokkurinn svíkur enn og aftur bandamenn sína í ríkisstjórninni, þ.e. Framsóknarflokkinn. Það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast þó að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi hlaupið í felur um leið og þessi umræða hófst. Það er ekki við stjórnarandstöðuna að sakast. Við hefðum svo gjarnan viljað fá að eiga orðastað við ýmsa þingmenn Sjálfstæðisflokksins, svo gjarnan, en því miður hlaupa þeir í felur. Framsóknarflokkurinn má þó eiga það að hann reynir af veikum mætti að færa fram einhverjar varnir í málinu (Landbrh.: Sterkum.) — af veikum mætti, því miður, hæstv. landbúnaðarráðherra.

Hér kom merkileg yfirlýsing um það að fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hefðu hætt í stjórnmálum vegna þess að þeir tóku þetta stríð svo nærri sér, það hefði gengið svo nærri þessum mönnum. Við erum enn með sama varaformanninn í Framsóknarflokknum og hann stendur hér fyrir framan mig. Kannski varð hann ekki formaður í Framsóknarflokknum vegna þess að hann þagði þegar mest reið á að einhver stæði upp og segði stopp, ég skal ekki um það segja.

Við höfum töluna fyrir framan okkur sem sýnir okkur hvað málið er alvarlegt. 654.965. Og ég minnist orða Harolds Pinters Nóbelsverðlaunahafa sem spurði í erindi sínu þegar hann fékk Nóbelsverðlaunin árið 2005: Hversu margar manneskjur þarftu að myrða til að geta talist stríðsglæpamaður? (Forseti hringir.) 100 þús.? spurði hann. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Meira en nóg.