133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:28]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í tilefni orða hv. þm. Sæunnar Stefánsdóttur leyfi ég mér að benda henni á að ég fór jafnófögrum orðum um Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn í ræðu minni áðan. Ég veit ekki hvort hún var að hlusta. Ég vil að það liggi alveg fyrir. Hins vegar, eins og á hefur verið bent, liggur málið þannig að Sjálfstæðisflokkurinn skilur Framsóknarflokkinn eftir í þessum pytti eins og svo mörgum öðrum. Þannig er nú komið fyrir 12 ára gömlu stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, en ekki ætla ég að hafa áhyggjur af því stjórnarsamstarfi enda lýkur því 12. maí næstkomandi.

Vegna umkvartana hv. þingmanns var það einfaldlega þannig að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, formaður hennar flokks, gaf tilefni til þeirrar umræðu sem hér hófst með því að þar upphófst hin mikla fréttatilkynningarumræða um tegund og eðli skjalsins en ekki um hina pólitísku ábyrgð flokkanna tveggja, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, og þáverandi foringja þeirra sem nú hafa báðir hrökklast úr stjórnmálum, ef marka má orð Sæunnar Stefánsdóttur, vegna stuðningsins við innrásina í Írak. Þetta snýst ekki um einhvern pappír í Hvíta húsinu, þetta snýst um pólitískan stuðning þessara flokka við innrásina í Írak. Undan því verður ekki vikist og um það snýst það þingmál sem hér um ræðir, að draga til baka þennan pólitíska stuðning þar sem hægt er að draga hann til baka, þ.e. með ályktun frá Alþingi Íslendinga.