133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:46]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Þetta er í rauninni undarleg umræða. Jón Sigurðsson, sem ekki sat í ríkisstjórn, var kjörinn formaður Framsóknarflokksins. Hann lýsir því yfir hiklaust þegar hann er búinn að skoða þessi mál að ákvörðunin hafi verið tekin á röngum forsendum og Framsóknarflokkurinn tekur undir það með honum.

Það hefur verið sagt í þessari umræðu og legið fyrir að fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku þessa ákvörðun einir og það er náttúrlega algjörlega klárt í mínum huga að af þessu máli má læra eins og hér hefur komið fram og er mikilvægt að læra þegar slíkt gerist að við erum ekki aðilar að stríði og höfum ekki verið og vorum það ekki. Við höfum lýst því yfir og teljum það alveg klárt að þetta hafi verið einhliða fréttatilkynning frá Hvíta húsinu um að við værum á lista yfir 30 þjóðir, viljugar og staðfastar, og í rauninni móðgun við Ísland að mínu viti.

Það liggur því algjörlega fyrir hvað Íran varðar að við styðjum ekki Bush eða Bush-stjórnina. Það hefur engin beiðni komið um það. Ég er klár á því að ég tel að stórar og mikilvægar ákvarðanir eigi að taka með ríkisstjórn að baki, með utanríkismálanefnd að baki, með þingið að baki. Það er því ekkert slíkt á dagskrá af hálfu okkar. Við höfum lýst því yfir að þessi gjörningur hafi í rauninni verið mistök. — Ég var í andsvari, hæstv. forseti.

(Forseti (ÞBack): Forseti hafði tekið þetta sem beiðni um ræðu og gaf þar af leiðandi hæstv. ráðherra ræðutíma.)