133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

yfirlýsing gegn stuðningi við innrásina í Írak.

13. mál
[17:49]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er algjörlega skýrt að ef beiðni kæmi um að Íslendingar skráðu sig á lista yfir einhverjar viljugar og staðfastar þjóðir og styddu slíkt stríð mundi ég aldrei fallast á það, aldrei. Aldrei nokkurn tíma, það er algjörlega skýrt. (KolH: En Framsóknarflokkurinn?) Og Framsóknarflokkurinn ekki heldur. (Gripið fram í.) Ég er að segja það hér, hv. þingmaður, að Halldór Ásgrímsson hefur sjálfur sagt, sem tók þessa ákvörðun með Davíð Oddssyni um að styðja innrásina og þeir tóku þá ákvörðun tveir, að ef hann hefði haft fyllri upplýsingar, eins og komið hafa fram síðar, á síðustu árum, hefði hann trúlega ekki tekið þessa afstöðu. Jón Sigurðsson, nýr formaður Framsóknarflokksins, sem hvergi hefur komið nálægt þessu máli hefur hreinsað það fyrir hönd Framsóknarflokksins og við höfum mjög skýra stefnu í þessu.

Ég verð að segja það hér fyrir mig að Bush Bandaríkjaforseti hefur verið heimsbyggðinni í mínum huga allt of dýr. Hann hefur breytt veröldinni með þeim hætti að hún er harðari og grimmari. (JBjarn: Ertu að afneita formanni þínum?) Hv. þm. Jón Bjarnason ber hér við dónaskap sem er sjaldan þekkt af manni sem alist hefur upp á Hólum. Bush Bandaríkjaforseti er ekki minn forseti, hann er ekki forseti íslensku þjóðarinnar og hann hefur því miður gengið mjög langt í mörgum málum að mínu viti.

En stefna Framsóknarflokksins í þessu máli er skýr. Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur hreinsað þetta mál út og afstaða okkar að öllum slíkum málum er mjög hrein.