133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[18:09]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar umræðu var frestað áðan hafði iðnaðarráðherra nýlega gefið ákveðna yfirlýsingu sem mér finnst mjög athyglisverð, yfirlýsingu um að flokkurinn hans mundi setja mikinn eða allan sinn þunga í að sett yrði ákvæði í stjórnarskrána um auðlindir sjávar. Hæstv. ráðherra tók reyndar þannig til orða, ef ég man rétt, að ákvæðið ætti að tryggja það að Alþingi gæti sett lög um afnotarétt eða nýtingarrétt. Mig langar að spyrja ráðherrann frekar út í hvað hann meinti með þessum ummælum til að ganga úr skugga um að það verði ekki misskilið. Hann minntist ekki á eignarrétt, þýðir þá yfirlýsing hans að inn í stjórnarskrárákvæðið komi ekki orðalag um að þessar auðlindir séu eign þjóðarinnar? Ég held að það verði að fást skýrt fram því að auðvitað er algerlega nauðsynlegt að í stjórnarskránni verði kveðið á um eignina, eignarhaldið á auðlindinni. Það kann að vera að ráðherrann hafi meint það og það kemur þá bara fram, en ég vildi spyrja eftir því þannig að ekki yrði vafi um merkingu þess sem hann sagði áðan.

Í öðru lagi spyr ég líka vegna þess að unnið er að því að ná samkomulagi um breytingartillögu á stjórnarskránni hvernig nýjar breytingar verði framvegis gerðar á henni. Þær hugmyndir sem voru á kreiki síðast þegar ég vissi eru þannig að einfaldur meiri hluti muni ekki lengur duga til að samþykkja stjórnarskrárbreytingu á Alþingi með þingkosningum í milli, heldur muni þurfa samþykki tveggja þriðju hluta alþingismanna til að hún teljist samþykkt. Það eru 42 þingmenn. Segjum sem svo að stjórnarskrártillaga fái aðeins 40 atkvæði hér og 1 atkvæði á móti, þá telst hún samt felld. Þetta ákvæði gerir það erfiðara að breyta stjórnarskránni, ekki auðveldara.

Þetta þýðir líka að Sjálfstæðisflokkurinn fær neitunarvald. Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur þriðjung atkvæða, eða a.m.k. 21 þingmann, getur hann komið í veg fyrir allar breytingar á stjórnarskránni. Segjum sem svo, virðulegi forseti, að inn í þessar stjórnarskrártillögur verði núna sett þessi áform sem ég var að rekja um hvernig eigi að standa að breytingum og síðan eitthvað um auðlindina og þá er algerlega óvíst að sú tillaga nái nokkurn tíma fram að ganga eftir kosningar vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn muni geta stoppað það. (Gripið fram í: … tvisvar.) Hvernig þá? Það er kannski vissara að fara í gegnum þetta þannig að mönnum sé ljóst um hvað verið er að reyna að ná samkomulagi. Mér sýnast þessar hugmyndir gera það ákaflega erfitt að ná fram þeirri breytingu sem við erum að sækjast eftir á auðlindaákvæði í stjórnarskrá, ef menn setja þessi stífu ákvæði um aukinn meiri hluta fyrir samþykktinni, og það er ekki einu sinni víst að hægt verði að fá málinu vísað til þjóðarinnar vegna þess að það er líka hægt að koma í veg fyrir það við ákveðin skilyrði. Menn verða þá að gera hlutina þannig að auðlindaákvæðið sé í fyrsta lagi ásættanlegt og í öðru lagi að hægt sé að koma því fram.

Þetta vildi ég spyrja um í kjölfar yfirlýsingar ráðherrans fyrr í dag sem mér fannst athyglisverð og vera að mörgu leyti eins og stríðsyfirlýsing gagnvart Sjálfstæðisflokknum. Kannski er það þess vegna sem Sjálfstæðisflokkurinn hvarf úr þingsalnum í umræðunni um Írak og ákvað að henda öllum þeim byrðum og syndum á framsóknarmenn. Sjálfstæðismenn fóru bara í kaffi, hver veit hvort það var ástæðan eða eitthvað annað tilfallandi. Ég skal ekki fullyrða um það en ég vildi gjarnan biðja hæstv. ráðherra að gefa nánari skýringar á yfirlýsingu sinni.