133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

varnir gegn landbroti.

637. mál
[18:20]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil kannski aðeins bæta því við að það er að mínu mati heldur engin tilviljun að iðnaðarráðherra tók í yfirlýsingu sinni sérstaklega fram að stjórnarskrárbreyting ætti að treysta núverandi fiskveiðistjórnarkerfi í sessi.

Varðandi það sem fram kom í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar er ég með tillögu hér sem við þingmenn fengum í gær til yfirferðar, drög að tillögu frá formönnum stjórnmálaflokkanna. Hún er ekki á þann veg sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson var að lýsa, heldur þannig að frumvarp til stjórnskipunarlaga verði eigi samþykkt nema með tveimur þriðju hluta atkvæða á Alþingi. Til þess að breytingartillaga fái samþykki þarf a.m.k. 42 atkvæði. Það kann að vera að einhverjar nýjar útgáfur séu komnar frá því að við fengum þetta til yfirlestrar seint í gær en þetta er það sem ég hef undir höndum. Svo er reyndar fleira í þessu sem mér líst mátulega á svo ég segi ekki meira

Ef menn ætla að fara einhverja slíka leið í stjórnarskrárbreytingu sem felur það í sér að Sjálfstæðisflokkurinn fái neitunarvald á breytingar eru menn að stíga skrefið aftur á bak vegna þess að þá auðvelda menn ekki þjóðinni að taka afstöðu til og greiða atkvæði um tilteknar breytingar, heldur eru menn þá að auðvelda tilteknum stjórnmálaflokki að koma í veg fyrir breytingar og koma í veg fyrir að þjóðin fái að fara í atkvæðagreiðslu um þær.