133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breyting á IX. viðauka við EES-samninginn.

649. mál
[19:03]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Það er nú ekki liðinn eins langur tími frá því að þessi ákvörðun var tekin í sameiginlegu nefndinni og í síðasta þingmáli. Hún var tekin 7. júlí og frestur til að lögfesta breytingar rann út að óbreyttu 7. febrúar þannig að nú er kominn mánuður fram yfir það. Það er svo sem ekki stórmál, a.m.k. ekki í mínum huga, en það sem ég velti fyrir mér er framhaldið.

Það segir hér á bls. 17 þar sem birt er þessi tilskipun sem á að lögleiða:

„Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 12. júní 2007.“

Það liggur fyrir að viðskiptaráðuneytið mun ekki leggja fram þingmál fyrr en í haust þannig að það er ljóst að við förum fram úr þessari gildistöku nema samið sé um að hún sé önnur en þarna stendur. Þá væri fróðlegt að fá fram hjá ráðherra hvort EFTA-ríkin hafa annan gildistíma en Evrópusambandsríkin í þessu.

Hins vegar er þessi tilskipun um neytendavernd ákaflega fróðleg og athyglisverð. Það hefði verið æskilegt að með greinargerðinni fylgdi einhver nánari lýsing en er að finna um þær breytingar frá gildandi íslenskum lögum sem munu leiða af þessari tilskipun. Mér finnst ekki alveg nóg að fá hér lýsingu á innihaldi tilskipunarinnar, heldur finnst mér að þurfi að gera grein fyrir því vegna þess að afleiðingin af því að samþykkja þessa þingsályktun er sú að Alþingi skuldbindur sig eiginlega til að breyta lögum. Þá finnst mér að í þessu hefði þurft að vera einhver sæmileg lýsing á því hvað fælist í þeim lagabreytingum.

Mig langar aðeins að spyrja um eitt atriði í þessu, hvort þessi ákvæði tilskipunarinnar um neytendavernd þar sem m.a. eru skilgreindir óréttmætir og uppáþrengjandi viðskiptahættir og fleira í þeim dúr leiði t.d. til þess að bönkunum verði gert óheimilt að starfa eins og þeir hafa gert gagnvart lántakendum, setja skilyrði um að menn gangi að því að borga uppgreiðslugjald ef viðskiptavinurinn hyggst færa sig frá einum viðskiptabanka yfir til annars og skilyrði um önnur viðskipti fyrir lánveitingu eins og þekkt er. Þetta eru að mínu viti mjög óeðlilegir viðskiptahættir sem bankarnir hafa haft frelsi til og heimildir til miðað við framkvæmdina að íslenskum lögum til þess að ástunda gagnvart íslenskum neytendum. Það væri fróðlegt ef til væru upplýsingar um það. Væntanlega hafa íslensk stjórnvöld skoðað þessa tilskipun, hvort þessi tilskipun muni t.d. í þessu tilviki leiða til lagabreytinga sem setja bönkunum skorður við því að ganga svona fram gagnvart viðskiptavinum sínum.