133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

650. mál
[19:11]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 124/2006, um breytingu á XVIII. viðauka við EES-samninginn, og fella inn í samninginn tilskipun nr. 2004/40 um lágmarkskröfur um heilbrigði og öryggi að því er varðar áhættu starfsmanna vegna váhrifa eðlisfræðilegra áhrifavalda (rafsegulsviðs). Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er ákvörðunin prentuð sem fylgiskjal með tillögunni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og er tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Með tilskipuninni eru settar lágmarkskröfur til að vernda heilsu og öryggi starfsmanna gegn váhrifum frá rafsegulsviðum á tíðnisviðinu 0 Hz til 300 GHz sem líklegt eða hugsanlegt er að starfsmenn geti orðið fyrir við vinnu sína. Tilskipunin kveður á um lágmarkskröfur og geta aðildarríki því tekið upp eða haldið hagstæðari ákvæðum til verndar starfsmönnum, einkum með því að ákveða lægri viðbragðsmörk eða viðmiðunarmörk váhrifa frá rafsegulsviðum en tilskipunin kveður á um.

Í tilskipuninni er fjallað um heilbrigðis- og öryggisáhættu starfsmanna vegna þekktra og skaðlegra skammtímaáhrifa í mannslíkamanum af völdum hringstreymis spanstrauma og orkugleypni, svo og vegna snertistrauma. Í tilskipuninni er ekki fjallað um meint langtímaáhrif og ekki um áhættu vegna snertingar við straumleiðara.

Í tilskipuninni er kveðið á um skyldur vinnuveitenda, m.a. við að ákvarða váhrif og mat á áhættu sem og hvernig megi forðast eða minnka áhættu. Þá er fjallað um skyldur vinnuveitenda til upplýsingagjafar og þjálfunar starfsmanna sem eiga á hættu að verða fyrir váhrifum frá rafsegulsviðum við störf sín. Sérstök ákvæði er einnig að finna um heilsuvernd og eftirlit með heilsu starfsmanna. Aðildarríkin skulu kveða á um að hægt sé að beita hæfilegum viðurlögum ef brotið er gegn landslögum sem eru samþykkt samkvæmt tilskipuninni.. Viðurlögin skulu vera áhrifarík, í réttu hlutfalli við brotið og letjandi.

Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar í félagsmálaráðuneytinu og kallar hún ekki á viðamiklar lagabreytingar.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til síðari umræðu og til hv. utanríkismálanefndar.