133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[19:19]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um réttarstöðu liðsafla ríkja Atlantshafsbandalagsins og Samstarfs í þágu friðar o.fl. sem lagt hefur verið fram sem þskj. nr. 981, mál nr. 655 á þessu löggjafarþingi. Frumvarp þetta er samið í utanríkisráðuneytinu.

Í kjölfar brotthvarfs varnarliðs Bandaríkjanna frá Íslandi 30. september 2006 og með vísan til fyrirætlana íslenskra stjórnvalda um samstarf á sviði varnarmála við fleiri þjóðir en Bandaríkin þykir nauðsynlegt að lögfesta lágmarksreglur um framkvæmd tiltekinna þjóðréttarsamninga sem varða annars vegar réttarstöðu liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins og hins vegar réttarstöðu liðsafla Samstarfs í þágu friðar o.fl. þegar hann dvelur hér á landi. Í frumvarpinu er jafnframt að finna heimild til handa ríkisstjórninni til að fullgilda umrædda samninga fyrir Íslands hönd. Einnig er með aðild Íslands að umræddum alþjóðasamningum leitast við að tryggja sem best réttarstöðu íslenskra friðargæsluliða erlendis. Frumvarpið byggir að miklu leyti á dönskum lögum um sama efni.

Virðulegi forseti. Þeir samningar sem óskað er heimildar til að fullgilda eru tveir. Annars vegar er það samningur um réttarstöðu liðsafla ríkja Atlantshafsbandalagsins, svonefndur SOFA-samningur, sem er í gildi milli allra aðildarþjóða Atlantshafsbandalagsins utan Íslands. SOFA-samningurinn markar réttarstöðu liðsafla við dvöl eða störf í öðru aðildarríki bandalagsins, hvort sem er vegna æfinga eða varnaraðgerða. Samningurinn skilgreinir refsilögsögu viðkomandi ríkja, úrlausnarleiðir í skaðabótamálum, skatta- og tollaundanþágur, einkennisbúninganotkun, vegabréfamálefni og gildi ökuskírteina.

SOFA-samningurinn er forsenda alls hernaðarlegs samstarfs aðildarríkja bandalagsins á friðar- og ófriðartímum hvað varðar alla veru liðsafla einstakra aðildarríkja í öðrum bandalagsríkjum. Ísland undirritaði SOFA-samninginn 19. júní 1951 en hann var ekki fullgiltur. Það stafaði af því að hér á landi var í gildi viðbætir við varnarsamninginn um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna á Íslandi. Sá viðbætir var lögfestur á Íslandi með lögum um varnarsamning Íslands og Bandaríkjanna nr. 110/1951 og eru ákvæði hans samhljóma nær öllum ákvæðum SOFA-samningsins. Lögfesting þessa frumvarps felur hvorki í sér nýjar né framandi skuldbindingar af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Í frumvarpinu er einnig að finna tilvísun til svokallaðrar Parísarbókunar frá 28. ágúst 1952 en Ísland fullgilti bókunina 11. maí 1953. Í Parísarbókuninni er fjallað um réttarstöðu fjölþjóðlegra, hernaðarlegra höfuðstöðva sem stofnsettar eru samkvæmt Norður-Atlantshafssamningnum. Þar eru enn fremur ákvæði um að SOFA-samningurinn skuli ákvarða réttarstöðu liðsafla aðildarríkjanna sem sendur er til slíkra höfuðstöðva.

Hinn samningurinn sem óskað er heimildar til að fullgilda samkvæmt frumvarpinu er samningur Atlantshafsbandalagsins um Samstarf í þágu friðar (Partnership for Peace) ásamt tveimur viðbótarbókunum hans. Ísland undirritaði samninginn um Samstarf í þágu friðar 19. júní 1995 en hann hefur ekki verið fullgiltur. Samningurinn kveður á um að ákvæði SOFA-samningsins skuli einnig gilda um samstarf við þær þjóðir sem taka þátt í Samstarfi í þágu friðar. Slíkar þjóðir kunna að taka þátt í æfingum hérlendis sem og samstarfi við íslensku friðargæsluna erlendis og því er mikilvægt að fullgilda samninginn ásamt viðbótarbókunum hans frá 19. júní 1995 og 10. mars 1997, til að tryggja að SOFA-samningurinn nái utan um slík tilvik.

Virðulegi forseti. Af ofansögðu má ljóst vera að fullgilding þeirra þjóðréttarsamninga sem hér um ræðir er sprottin af þeim breytingum sem orðið hafa á varnarviðbúnaði Íslands sem og vegna þeirrar auknu ábyrgðar sem Ísland hefur axlað á vettvangi Atlantshafsbandalagsins með þátttöku í aðgerðum bandalagsins. Með innleiðingu þessara samninga verður fyrir hendi skýrari rammi um samstarf Íslands við aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins og aðrar vinveittar þjóðir, hvort sem er heima eða heiman vegna æfinga eða varna.

Virðulegi forseti. Með hliðsjón af því sem ég hef sagt að framan eru meginatriði frumvarpsins sem hér segir. Í fyrsta lagi er ríkisstjórninni heimilt að fullgilda tvo þjóðréttarsamninga og viðbótarbókanir við annan þeirra sem varðar réttarstöðu liðsafla á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og Samstarfs í þágu friðar.

Í öðru lagi er í frumvarpinu kveðið á um fyrirsvarshlutverk utanríkisráðherra af hálfu íslenska ríkisins vegna samskipta við erlendan liðsafla og þau hermálayfirvöld sem hann lýtur. Einnig er mælt fyrir um fyrirsvarshlutverk utanríkisráðherra vegna undirbúnings og fyrirkomulags friðargæsluæfinga og heræfinga sem haldnar eru hérlendis með samþykki íslenskra stjórnvalda og erlendur liðsafli tekur þátt í.

Í þriðja lagi er að finna í frumvarpinu lagaákvæði stjórnsýslulegs eðlis sem varða framkvæmdaratriði tengd innleiðingu framangreindra þjóðréttarsamninga. Um er að ræða framkvæmdaatriði sem óhjákvæmilega fylgja veru erlends liðsafla hér á landi. Þar á meðal eru ákvæði um heimildir til vopnaburðar, framkvæmd refsilögsögu, löggæsluframkvæmd, tolla- og skattamál og úrlausn skaðabótamála.

Fæst þeirra framkvæmdaatriða sem hér um ræðir eru ný af nálinni. Hér er um að ræða framkvæmd á sviði varnarmálastjórnsýslu sem lengi hefur verið hluti af gildandi rétti flestra nágrannaþjóða okkar. Þessi atriði eru nú þegar hluti af gildandi íslenskum rétti, samanber ákvæði laga nr. 110/1951 að því er varðar framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna.

Með frumvarpi þessu er fyrst og fremst verið að útvíkka núverandi réttarframkvæmd og réttarvernd þannig að hún nái einnig til annarra samstarfsþjóða Íslands á þessum vettvangi. Með því móti er löggjöf okkar færð til samræmis við það sem tíðkast í nágrannaríkjum okkar á þessu sviði.

Íslensk stjórnvöld leita nú samstarfs við grannþjóðir innan Atlantshafsbandalagsins um öryggismál landsins á friðartímum. Slíkt samstarf getur ekki orðið án þess að hér sé í gildi samningur um réttarstöðu þess liðsafla sem hingað kann að koma í boði íslenskra stjórnvalda.

Virðulegur forseti. Ég legg á það áherslu að fullgilding SOFA-samningsins og samningsins um Samstarf í þágu friðar er forsenda þess að bandalagsþjóðir geti komið til Íslands til að taka þátt í æfingum og vörnum landsins og að réttarstaða liðsafla þeirra sé á sama tíma tryggð.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og hv. utanríkismálanefndar.