133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:19]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð um þetta frumvarp sem ég er mjög eindregið andvígur og tek undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að vonandi nær það ekki fram að ganga og kemur aldrei fram aftur hér. Með frumvarpinu er kveðið á um heimildir erlendra ríkja og þá einkum NATO-ríkja til að stunda heræfingar hér á landi og það er kveðið á um réttarstöðu þeirra sem koma í slíkum erindagerðum og einnig ýmsar skyldur. Í 6. gr. segir, með leyfi forseta:

„Hver sá sem ljóstrar upp um eða kemur á framfæri vitneskju sem leynt á að fara varðandi öryggi þess erlenda liðsafla, sem dvelur á Íslandi á grundvelli samninga skv. 2. gr., eða varðandi öryggi aðildarríkja þessara samninga skal sæta fangelsi allt að sextán árum.“ — Það á að girða fyrir alla hluti hér.

Ég vildi vekja athygli á samþykkt nýafstaðins landsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um utanríkis- og alþjóðamál en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Engar heræfingar skulu haldnar hér á landi, komur herskipa og herflugvéla bannaðar, svo og flutningur pólitískra stríðsfanga.“ — Síðan segir enn, með leyfi forseta: „Þá skal öll meðferð og flutningur efna-, sýkla- og kjarnorkuvopna bannaður um íslenska lofthelgi og lögsögu.“

Væru ekki allir tilbúnir að skrifa upp á þetta? Nei, vegna þess að ef við skrifum upp á þetta getum við ekki samþykkt þetta frumvarp. Staðreyndin er nefnilega sú að NATO-herirnir neita að upplýsa um hvaða vopn herir þeirra hafa undir höndum hverju sinni. Ég er því fylgjandi að Ísland verði friðlýst, hér verði bannaðar heræfingar eða það sem hæstv. ráðherra kallaði friðargæsluæfingar. Eru það ekki friðargæslusveitir sem eru að störfum í Írak núna, bandarískar friðargæslusveitir? Þetta eru náttúrlega ekkert annað en heræfingar sem hér er kveðið á um og ég vil segja það, hæstv. forseti, enn og aftur að NATO er hættulegri félagsskapur en það hefur nokkru sinni verið. Vísa ég þar í þær áherslubreytingar sem orðið hafa á samþykktum bandalagsins og voru smám saman að koma fram á 10. áratug síðustu aldar og hlutu staðfestingu eða stimpil á hálfrar aldar afmæli bandalagsins í Washington árið 1999. En áherslubreytingin felur það í sér að í stað þess að menn einblíni á árás á eitt aðildarríkjanna sem tilefni til gagnviðbragða þá er núna lögð meiri áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir og talað um ógn í því sambandi. Ef aðildarríki bandalagsins er ógnað þá skal líta svo á að öllu bandalaginu sé ógnað.

Hverjir er líklegastir til að verða ógnað í heiminum? Eru það ekki þeir sem eru með sínar klær og sína anga í vafasömum erindagerðum víðs vegar um heiminn og ætli það séu ekki Bandaríkjamenn? Ætli það sé ekki stærsta herveldi og gráðugasta herveldi heimsins nú um stundir? Við erum að binda trúss okkar við þetta og við höfum undirgengist það að líta svo á að ógn sem steðjar að ræningjum heimsins, þessum mestu arðræningjum heimsins, sé jafnframt ógn gagnvart Íslandi og við erum að bjóða þessum aðilum land okkar til afnota til heræfinga. Að sjálfsögðu eigum við ekki að fallast á slíkt. Ég mun fyrir mitt leyti berjast af alefli gegn því að þetta frumvarp nái fram að ganga.