133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:36]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé sama hversu oft maður kemur hér upp, við verðum ekki sammála um þetta mál. Þeir tveir hv. þingmenn sem hér hafa talað og eru frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði eru bara á móti NATO-samstarfinu og mjög heitir í þeirri trú sinni á meðan við sem höfum stutt NATO-samstarfið erum líka mjög heit á þeirri skoðun að mjög mikill varnarmáttur sé falinn í því samstarfi af því árás á eitt ríki er árás á þau öll. Sem lítið ríki án hers er mjög mikill varnarmáttur falinn í þeirri hugmyndafræði.

Ég vil ítreka að hér erum við að ræða um áframhaldandi samstarf við þessar bandalagsþjóðir. Við styðjum samstarfið meðan hv. þingmenn í Vinstri grænum gera það ekki. Þegar maður styður samstarf af því tagi sem hér er verið að ræða um er (Gripið fram í.) eðlilegt að við fullgildum þann samning þannig að þegar bandalagsþjóðir okkar koma hingað til samstarfs við okkur um bæði öryggismál landsins og æfingar, sé réttarstaða þeirra tryggð.

Varðandi refsilögsöguna er hún sambærileg löggjöf í Danmörku. Ég tel að hér sé ekkert á ferðinni sem gefur tilefni til einhverrar óeðlilegra vangaveltna.

En ég tel, virðulegi forseti, að eðlilegt sé að við fullgildum þennan samning, bæði fyrir þær þjóðir sem eru í samstarfi við okkur og líka fyrir friðargæsluliða okkar sem starfa á erlendum vettvangi. (Gripið fram í: En ljósmæðurnar?)