133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:42]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvað fólki sem hefur misst sitt og sína í hildarleiknum í Írak eða Afganistan finnst um svona ræður, að Íslendingar sem hafa látið setja sig á lista hinna viljugu stuðningsþjóða árásanna hafi breytt kynjahlutfalli í friðargæslunni og þess vegna sé allt í góðu lagi.

Það sem við eigum að hætta að gera er að vera eins konar hreinsideild fyrir bandaríska herinn, að koma og hreinsa upp eftir hann. Það eru nóg verk að vinna í þróunarríkjum og meðal fátækra þjóða í heiminum. Þangað eigum við, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti á, að senda íslenska karla og íslenskar konur, ljósmæður, hjúkrunarfræðinga, fólk sem kann til verka, fólk sem getur hjálpað þjáðum. Við eigum að einbeita okkur að því en ekki vera hreinsideild fyrir bandaríska herinn.