133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[20:45]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég er ekki fastur í neinni umræðu frá því fyrr í dag. Ég er hins vegar fastur í því að vilja ræða raunveruleikann eins og hann blasir við mér varðandi hernaðarbandalagið NATO, samvinnu okkar við bandaríska herveldið og hlutdeild íslensku ríkisstjórnarinnar í þeim hörmulegu atburðum sem hafa átt sér stað í Afganistan og Írak. Við studdum báðar þessar árásir, báðar þessar innrásir. Í báðum tilvikum var beitt blekkingum og ósannindum og í báðum tilvikum fórum við þangað inn, inn í bæði þessi lönd, með mannafla og fjármuni að kröfu NATO, að kröfu Bandaríkjamanna til þess að taka þátt í að hreinsa upp eftir árásarherina. Þetta eru bara staðreyndir sem menn þekkja til.

Íslenskt fjármagn hefur m.a. verið notað til að flytja vopn og þjálfa öryggissveitir. Ef þetta er ekki hreinsistarf á vegum herdeildanna veit ég ekki hvaða nafni á að nefna það yfirleitt. Ég ítreka að Íslendingar eiga að taka þátt í þróunarsamvinnu og aðstoð við fátækar þjóðir, við höfum þar mikið verk að vinna sem við yrðum sæmd af en það erum við ekki í þessum tilvikum.