133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

réttarstaða liðsafla aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins o.fl.

655. mál
[21:08]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér heyrðist hv. þingmaður segja að sérstök stefnubreyting væri á ferðinni og við yrðum hér með vopnvædd þjóð. Það er algerlega fráleitt að draga þá ályktun.

Mér skilst að hv. þingmaður álíti að með því að fullgilda samninginn Partnership for Peace gagnvart friðargæslunni, með tilvísun þar í SOFA-samninginn, og það einungis um réttarstöðuna, séum við orðin vopnvædd þjóð. Ég vil benda á að þetta er oftúlkun hjá hv. þingmanni. Einungis er um réttarstöðuna að ræða, réttarstaða íslensku friðargæsluliðanna batnar. Það er oftúlkun hjá hv. þingmanni að stefnubreyting felist í fullgildingu þeirra tveggja samninga sem hér um ræðir.

SOFA-samningurinn gildir um liðsafla en friðargæsluliðar okkar eru alls ekki her og ekki undir nokkrum kringumstæðum hægt að skilgreina þá svo. Við verðum ekki vopnvædd þjóð þó að við fullgildum þessa samninga. Ég vil ítreka þetta því mér heyrðist hv. þingmaður draga þá ályktun.

Ég vil líka nýta tækifærið og ræða það fjármagn sem hefur farið til Íraks. Það fer m.a. í Össur, ekki í þann hv. þingmann sem hér er heldur til fyrirtækisins Össurar sem framleiðir gerviliði. Nýbúið er að dreifa, að mér skilst, ítarlegu svari frá hæstv. utanríkisráðherra þar sem tilgreind er hver einasta króna sem fer til friðargæslustarfa, m.a. í Írak. Því var dreift ekki hér fyrir löngu.