133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[21:17]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Yfirlýst markmið þessa frumvarps sem ég mæli hér fyrir er að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda. Áður en ég fer í efni og einstök atriði frumvarpsins vil ég gjarnan fara yfir þær alþjóðlegu skuldbindingar okkar samkvæmt Kyoto-bókuninni til að skýra betur meginmarkmið frumvarpsins og hvernig efni þess lýtur að þessum skuldbindingum.

Kyoto-bókunin setur Íslandi bindandi mörk varðandi losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2008–2012. Annars vegar má losun frá Íslandi ekki aukast meira árlega á þessu tímabili en um 10% miðað við losun árið 1990. Hins vegar eru sérstakar heimildir um losun koldíoxíðs frá stóriðju sem notar endurnýjanlega orku allt að 1,6 milljónum tonna að meðaltali á ári á tímabilinu í samþykkt sem stundum er nefnt íslenska ákvæðið. Þessar heimildir eru bundnar ströngum skilyrðum.

Þegar Kyoto-bókunin var fullgilt á Alþingi árið 2002 fylgdi tillögu til þingsályktunar greinargerð þar sem sýnt var fram á hvernig fjögur stóriðjuverkefni sem þá voru í umræðunni mundu verða innan ramma þessa ákvæðis. Forsendur hafa breyst nokkuð frá 2002 og fyrirtæki hafa sett fram hugmyndir um ný stóriðjuverkefni hér á landi. Þetta hefur gefið tilefni til endurútreikninga á spám um losun. Losunarspár Umhverfisstofnunar hafa gefið til kynna að losun verði innan þeirra marka sem Íslandi eru sett samkvæmt Kyoto-bókuninni á tímabilinu 2008–2012. Þar gæti þó munað litlu ef ýtrustu hugmyndir um stóriðju ganga eftir og eins hratt og forsvarsmenn einstakra verkefna vonast til.

Í ljósi þeirra nýju áforma skipaði þáverandi umhverfisráðherra nefnd um mitt ár 2005 til að skoða hugsanlegar reglur á þessu sviði. Nefndin skilaði áliti í fyrra í formi frumvarps sem varð þá að lögum um að skrá losun gróðurhúsalofttegunda sem hafa styrkt, þ.e. lögin, lagalegt umhverfi stjórnvalda og sérstaklega Umhverfisstofnunar til að endurbæta loftslagsbókhald sitt og undirbúa þær kröfur sem öðlast gildi í byrjun skuldbindingartímabils Kyoto árið 2008. Sú nefnd fékk umboð til að framlengja starf sitt og er meðfylgjandi frumvarp afrakstur starfs þeirrar nefndar sem skipuð var fulltrúum fjármálaráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins auk umhverfisráðuneytisins sem veitti nefndinni formennsku.

Kjarninn í meðfylgjandi frumvarpi er sá að settar eru takmarkandi reglur um losun koldíoxíðs frá stórum einstökum uppsprettum en engar slíkar reglur eru nú í gildi. Slíkri losun eru takmörk sett í ljósi skuldbindinga Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni og verður að telja líklegt að svo verði áfram eftir að fyrsta skuldbindingartímabili bókunarinnar lýkur árið 2012. Eins og fyrr segir er ólíklegt að Ísland fari yfir heimildir sínar á tímabilinu 2008–2012 en það er engu að síður nauðsynlegt að kveða skýrt á um hvaða reglur gilda ef einstakir losendur fara yfir heimildir. Ég tel afar æskilegt að slíkar reglur liggi fyrir áður en skuldbindingartímabilið hefst í byrjun næsta árs.

Engar alþjóðlega bindandi skuldbindingar liggja fyrir um tímabilið eftir 2012 og efni frumvarpsins fjallar ekki um losun eftir þann tíma með beinum hætti. Lagasetning af því tagi sem hér er sett fram í frumvarpi þessu er þó skýr skilaboð til fyrirtækja um að ekki sé hægt að ganga að því vísu að losun koldíoxíðs verði án takmarkana og frekari skilyrða eftir árið 2012. Slík skilaboð eru mikilvæg þar sem þau hvetja til þess að leitað sé að betri tækni til að draga úr losun koldíoxíðs sem veldur auknum gróðurhúsaáhrifum og einnig að rekstrarforsendur séu metnar í ljósi þeirra takmarkana sem síðar kann að verða gripið til.

Ríkisstjórnin hefur nýverið samþykkt stefnumörkun í loftslagsmálum. Hún er hugsuð sem rammi utan um aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum, hún er mun víðtækari en fyrri stefnumörkun frá 2002 sem miðaði einkum að því að Ísland mundi standa við skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni. Ekkert liggur fyrir hvað tekur við varðandi takmörkun eftir 2012. Viðræður á alþjóðavettvangi um hvað taki við eru hafnar og munu halda áfram jafnt og þétt á næstu mánuðum.

Segja má að frumvarpið setji upp eins konar öryggisgirðingar til að tryggja að Ísland standi við alþjóðlega bindandi skuldbindingar sínar gagnvart Kyoto-bókuninni. Þetta verður gert með því að skylda atvinnurekstur sem losar mikið magn koldíoxíðs til að afla sér losunarheimilda sem nægja fyrir losuninni. Stjórnvöld munu úthluta þeim heimildum sem Ísland hefur til ráðstöfunar til stórra losunaraðila eftir reglum sem settar eru í frumvarpinu. Fái atvinnurekstur ekki úthlutað nægum losunarheimildum frá stjórnvöldum fyrir sinni losun þarf hann að útvega sér þær eftir öðrum leiðum með aðferðum sem viðurkenndar eru í Kyoto-bókuninni, með skógrækt eða landgræðslu eða með kaupum á heimildum erlendis frá. Frumvarpið bannar því ekki losun frá atvinnurekstri sem fær ekki úthlutað nægum losunarheimildum en tryggir að kostnaður við það fellur á viðkomandi atvinnurekstur en ekki á ríkissjóð.

Herra forseti. Ég ætla þá að fara nánar yfir efni frumvarpsins og einstök atriði þess. Þá ber í fyrstu að taka fram að í frumvarpinu er fellt inn efni núgildandi laga, nr. 107/2006, um að skrá losun gróðurhúsalofttegunda og lagt til að samhliða verði þau lög felld úr gildi. Efnislega munu ákvæði gildandi laga um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda auk skráningarkerfis losunarheimilda haldast að mestu óbreytt og mun ég því ekki fjalla frekar um þann þátt frumvarpsins.

Helsta nýmæli frumvarpsins er að lagt er til að tveir flokkar atvinnurekstrar, í fyrsta lagi staðbundin orkuframleiðsla með brennslu jarðefnaeldsneytis sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega, og í öðru lagi staðbundin iðnaðarframleiðsla sem losar meira en 30.000 tonn koldíoxíðs árlega verði óheimil, þ.e. þessu tvennu, þessum tvenns konar framleiðsluflokkum verði óheimilt að starfa á tímabilinu 1. janúar 2008 til 31. desember 2012, nema þeir afli sér losunarheimilda vegna losunar koldíoxíðs. Þessi skylda nær ekki til annarra gróðurhúsalofttegunda svo sem flúorkolefna frá áliðnaði en þar eru í gildi mjög ströng ákvæði í starfsleyfum.

Í frumvarpinu er lagt til að þriggja manna úthlutunarnefnd, sem skipuð verði af umhverfisráðherra og í munu sitja fulltrúar iðnaðarráðuneytisins, umhverfisráðuneytisins og fjármálaráðuneytis, geri áætlun um úthlutun losunarheimilda vegna atvinnurekstrar sem fellur undir gildissvið laganna. Í frumvarpinu er lagt til að formaður nefndarinnar komi frá iðnaðarráðuneyti í samræmi við stefnumörkun með þingsályktun um fullgildingu Kyoto-samningsins 2002. Samkvæmt henni var iðnaðarráðuneytinu falin umsjón með úthlutun losunarheimilda samkvæmt ákvörðun 14/CP.7 eða hins svokallaða íslenska ákvæðis, en stærsti hluti þeirra losunarheimilda sem nefndin úthlutar eru heimildir samkvæmt íslenska ákvæðinu.

Nefndinni er ætlað það hlutverk að gera áætlun um úthlutun á losunarheimildum fyrir allt skuldbindingartímabilið eða öll fimm árin. Sú áætlun á að eyða óvissu um væntanlega úthlutun losunarheimilda sem fram fer árlega þannig að atvinnurekstur sem fellur undir lögin geti búið við eins mikið starfsöryggi gagnvart losun gróðurhúsalofttegunda og hægt er út fimm ára tímabilið. Þar nýtur atvinnurekstur sem þegar er starfandi eða mun hefja starfsemi fyrir upphaf skuldbindingartímabilsins forgangs. Atvinnurekstur sem hyggst hefja starfsemi eða auka starfsemi á tímabilinu 2008–2012 gæti hugsanlega lent í þeirri stöðu að ónógar losunarheimildir séu þá til ráðstöfunar en hann þyrfti þá að afla sér heimilda eftir öðrum leiðum eða hætta við framkvæmdir.

Áætlunin er bindandi í þeim skilningi að ekki er heimilt að skerða úthlutun losunarheimilda til tiltekins atvinnurekstrar sem fær úthlutun á tímabilinu, svo sem vegna þess að nýir aðilar koma inn sem sækja um úthlutun heimilda. Heildarmagn þeirra losunarheimilda sem úthlutunarnefndinni er heimilt að úthluta samkvæmt frumvarpinu er 10,5 milljónir losunarheimildir fyrir allt tímabilið, þ.e. 1. janúar 2008 til 31. desember 2012. Ein losunarheimild jafngildir heimild til losunar eins tonns af koldíoxíði. Í greinargerð með frumvarpinu er farið nákvæmlega yfir þá útreikninga sem liggja að baki þessari tölu.

Ég vil nefna að langstærsti hlutinn eða um 8 milljónir þessara heimilda eru til komnar vegna íslenska ákvæðisins og um 1,7 milljónir losunarheimilda vegna atvinnurekstrar sem var starfandi árið 1990 og fellur því ekki undir íslenska ákvæðið. Gert er ráð fyrir að um 785 þúsund losunarheimildir á tímabilinu 2008–2012 eða árlega 157 þúsund að meðaltali verði til ráðstöfunar til nýs almenns atvinnurekstrar sem er skyldur til að afla sér losunarheimilda óháð því hvort hann fellur undir skilgreiningu íslenska ákvæðisins. Til glöggvunar má benda á að þetta eru um 4,3% af þeim almennu heimildum sem Íslandi verður úthlutað á grundvelli Kyoto-bókunarinnar.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að atvinnurekstur sem fellur undir gildissvið laganna geti sótt um losunarheimildir til úthlutunarnefndar og/eða lagt fram áætlun um hvernig hann muni afla sér losunarheimilda eftir öðrum leiðum vegna tímabilsins 2008–2012. Úthlutunarnefndin á að styðjast við ákveðin viðmið við gerð áætlunar um úthlutun losunarheimilda og er það að mínu mati nauðsynlegt að skýrar reglur liggi til grundvallar úthlutun, enda um mikla hagsmuni að ræða. Atvinnureksturinn fær síðan úthlutað árlega losunarheimildum í samræmi við áætlun úthlutunarnefndar.

Rétt er að benda á að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að atvinnurekstri verði heimilt að selja þær losunarheimildir sem hann fær úthlutað frá úthlutunarnefndinni. Atvinnurekstri er hins vegar ætlað að afla sér losunarheimilda annars staðar frá ef hann fær ekki úthlutað nægilega mörgum losunarheimildum vegna þeirrar losunar sem viðkomandi fyrirtæki stendur fyrir. Hér er því ekki um viðskiptakerfi að ræða, enda bannar ákvörðun 14/CP.7 eða hið svokallaða íslenska ákvæði viðskipti með losunarheimildir sem falla þar undir. Það er heldur ekki tilgangur frumvarpsins að setja á fót kerfi eignarkvóta og viðskipta með þá heldur er einungis verið að tryggja að losun koldíoxíðs af völdum stórra aðila verði ekki meiri en heimildir Íslands samkvæmt Kyoto-bókuninni leyfa.

Umhverfisstofnun er ætlað að gegna margþættu hlutverki í frumvarpinu. Eins og áður er stofnuninni ætlað að sjá um bókhald yfir losun gróðurhúsalofttegunda og bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi, auk skráningarkerfisins þar sem losunarheimildir Íslands eru færðar inn. Við það bætist að Umhverfisstofnun er falið að fara yfir umsóknir sem berast frá atvinnurekstri um losunarheimildir, að sjá um reikninga atvinnurekstrar og annarra lögaðila í skráningarkerfinu og fara yfir skýrslur atvinnurekstrar um losun koldíoxíðs.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.