133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[21:30]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. umhverfisráðherra sagði í ræðu sinni að þær 10,5 millj. tonna, sem til úthlutunar væru þessi fimm ár, væru skýrð nákvæmlega í frumvarpinu. En það er því miður ekki alveg rétt hjá ráðherranum. Ég bið um að það verði skýrt enn frekar.

Minn skilningur er sá að þarna sé átt við 8 millj. tonna samkvæmt hinu íslensk-mónakóska ákvæði, sem svo ber sennilega að kalla nú, frá Marrakesh. En að auki komi 2,5 millj. tonna sem væntanlega eru framreiknaður hluti álversins og járnblendiverksmiðjunnar í losun á Íslandi fyrir árið 1990. Þetta er sem sé hvergi skýrt í frumvarpinu og þessar 2,5 millj. tonna koma á óvart þeim sem reyna að glöggva sig á málunum.

Ég vil líka spyrja ráðherrann í leiðinni hvort það sé ekki örugglega rétt að þótt viðskipti af ákveðnu tagi séu forboðin með kvótanum samkvæmt íslensk-mónakóska ákvæðinu, þá sé ekkert slíkt bann í gildi um hinn almenna kvóta sem löndin fá úthlutað í hlutfalli við losunina 1990.