133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[21:32]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Í framsögu minni vísaði ég til ítarlegrar útlistunar í frumvarpinu. Ég veit svo sem ekki hversu miklu ég hef við það að bæta en bendi á að við yfirferð nefndarinnar um málið er viðbúið að hægt sé að endurtaka þessar tölur. Ég viðurkenni að þetta er svolítið ruglingslegt.

Ég reyndi að koma því til skila að heildarmagnið er 10,5 millj. losunarheimilda fyrir allt tímabilið. Langstærstur hluti, um 8 millj. þessara heimilda eru tilkomnar vegna íslenska ákvæðisins. Um 1,7 millj. losunarheimilda eru vegna atvinnurekstrar árið 1990. Þá erum við að tala um Álverið í Straumsvík og járnblendið eins og það var árið 1990. Sá hluti fellur ekki undir íslenska ákvæðið eins og okkur er ljóst. En hins vegar er gert ráð fyrir að þetta sé inni í þessari tölu, 10,5 millj. heimilda sem verður úthlutað af úthlutunarnefndinni.

Ef við reiknum þetta saman að þá standa samkvæmt þessu út af borðinu um 785 þús. losunarheimildir fyrir tímabilið sem gera á 5 ára tímabili að meðaltali 157 þús. á ári til ráðstöfunar til nýs atvinnurekstrar, almenns atvinnurekstrar sem er skyldur að afla sér losunarheimilda óháð því hvort hann fellur undir skilgreiningu á íslenska ákvæðinu.

Þetta get ég sagt, herra forseti, til að skýra þessar tölur. En mig langar að endingu að vísa á ágætt svar við ágætri skriflegri fyrirspurn frá hv. þm. Merði Árnasyni (Forseti hringir.) þar sem þessar tölur voru ítarlega útlistaðar og sundurgreindar eftir iðjuverum.