133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[21:57]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér mál umhverfisráðherra um losun gróðurhúsalofttegunda. Ég verð að segja eins og er, að í 1. umr. um þetta mál í fámennum þingsal, síðla kvölds, löngu eftir að við áttum von á að fá þetta mál inn í þingið, hef ég afar lítinn áhuga á að hengja mig í tölulegar reikningskúnstir, í spekúlasjónir um íslensk-mónakóska ákvæðið eða íslenska stóriðjuákvæðið, þ.e. íslenska undanþáguákvæðið. Ég hef mesta þörf fyrir að ræða prinsippin í þessu máli. Ég verð að segja eins og er að það er vonum seinna að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks geri tilraun til að reka af sér slyðruorðið í þessum málaflokki þegar á allt er litið.

Á síðasta ári var lagt fyrir þingið frumvarp til laga sem hæstv. umhverfisráðherra mælti fyrir. Það fjallaði um bókhaldsskyldu fyrirtækja, þ.e. það varð að lögum nr. 107/2006, um að skrá losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar það mál kom fyrir þingið í fyrra gagnrýndi ég það harðlega að ekki skyldi sýnt á fleiri spil frá hæstv. ríkisstjórn um hver stefnan yrði í loftslagsmálunum. Það frumvarp var tæknilegs eðlis og fjallaði um á hvern hátt fyrirtæki ættu að skrá hjá sér losun gróðurhúsalofttegunda, nokkuð sem hefði átt að vera komið í frumvarpsformi löngu fyrr því að það er ekki eins og menn hafi ekki vitað hvað þeir ættu yfir höfði sér í þessum efnum á undanförnum árum.

Það frumvarp fer í gegn hálfkarað og verður, eins og ég sagði áðan, að lögum nr. 107/2006. Undir lok þessa þings, þegar eftir eru fjórir almennir fundardagar í þinginu leyfir hæstv. umhverfisráðherra sér að koma með þetta frumvarp, þröngva því á dagskrána seint um kvöld þegar viðbúið er að fáir þingmenn taki þátt í umræðunni. Þá kemur í ljós að frumvarpið frá í fyrra, hin nýju lög nr. 107/2006, eru afnumin með þessu frumvarpi. Allt er þetta staðfesting þess hversu vanbúinn hæstv. umhverfisráðherra er til að tala fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum og hversu lin og aumingjaleg stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálunum er. Hún litast af stefnu ríkisstjórnarinnar í stóriðjumálum. Hvað er þetta annað en stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar í hnotskurn, að nú skuli lagt ofurkapp á að koma á einhverju kerfi til að menn geti sagt að þeir hafi lögleitt einhverjar lágmarksreglur sem gera það þó að verkum að þeir verða ekki gerðir burtrækir úr samfélagi þjóðanna fyrir að fara á svig við Kyoto-bókunna og loftslagssamninginn. En það er ömurlegt að lesa þessa greinargerð þar sem í ljós kemur hvað í vændum er.

Ef stóriðjan heldur áfram á þeirri blússandi siglingu sem þessi ríkisstjórn hefur heimilað henni þá erum við strax á fyrsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar komin langt yfir þær heimildir sem undanþáguákvæðið gefur. Auðvitað er svo sérkapítuli út af fyrir sig hvernig þessari ríkisstjórn gengur að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá almennum uppsprettum, öðrum uppsprettum en stóriðjunni. Ég tel, hæstv. forseti, að þessi pappír lýsi náttúrlega gjaldþrota stefnu ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum almennt.

Hver er skuldbinding íslensku ríkisstjórnarinnar gagnvart loftslagssamningnum sem samþykktur var í Ríó 1992? Hún er hin sama og aðrar þjóðir tóku á sig og fyrst og síðast þær sem síðan undirrituðu Kyoto-bókunina, þ.e. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hvernig stendur þessi ríkisstjórn sig í því? Það kemur í ljós þegar maður les greinargerðina með frumvarpinu að hún stendur sig ekki. Hæstv. umhverfisráðherra talar fyrir frumvarpi sem lýsir því hvernig Ísland, í lok fyrsta skuldbindingartímabils Kyoto-bókunarinnar, þurfi að óbreyttu kerfi eftir 2012, að sækja um viðbótarheimildir á vettvang samningsins.

Á sama tíma og ríkisstjórn Íslands talar svona reyna Norðurlöndin að draga úr losun í sínum löndum. Ég er hér með, hæstv. forseti, norræna framkvæmdaáætlun á sviði umhverfismála fyrir tímabilið 2005–2008. Þessi áætlun er gefin út á íslensku og í henni má lesa meginstefnumið Norðurlandanna. Þau eru vel að merkja undirrituð fyrir hönd Íslands og samþykkt af fyrrverandi umhverfisráðherra, hæstv. núverandi forseta Alþingis, Sigríði Önnu Þórðardóttur. Hún fylgir úr hlaði þessari metnaðarfullu áætlun Norðurlandanna með inngangi sem ég væri alveg sátt við ef ekki væri undirliggjandi stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar. Nú skulum við aðeins líta á metnaðarfulla stefnu Norðurlandanna sem hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir skrifaði undir í góðri trú að því er virðist, ef marka má orð hennar í upphafskaflanum.

Í kafla nr. IV segir um meginmarkmiðin, með leyfi forseta:

„Norðurlöndin stuðli að því að ná meginmarkmiðum og langtímamarkmiðum loftslagssamningsins um að „takmarka magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu þannig að komið verði í veg fyrir hættuleg áhrif á loftslagið af manna völdum.“

Ég undirstrika, virðulegi forseti, að við erum skuldbundin af þjóðarrétti til að takmarka magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. En síðan segir í metnaðarfullri áætlun Norðurlandanna, með leyfi forseta:

„Norrænu ríkin vilja vinna að metnaðarfyllri framtíðarstjórnun loftslagsmála heimsins eftir 2012. Af Norðurlandanna hálfu verður unnið að því að samstarf verði breitt og með þátttöku sem flestra ríkja.“

Í kafla 3.6 segir í sömu áætlun, með leyfi forseta, um áhrif loftslagsbreytinga á náttúru og menningarminjar, að markmiðið sé:

„Að efla fræðslu um áhrif hnattrænna loftslagsbreytinga á náttúru og menningarminjar á Norðurlöndum.

Í norrænu samstarfi verður lögð áhersla á að auka þekkingu og efla aðgerðir varðandi mat á áhrifum loftslagsbreytinga á náttúru og menningarminjar á Norðurlöndum og norðurskautssvæðum. Gera þarf grein fyrir viðkvæmri náttúru, áhrifaþáttum og mögulegri aðlögun að loftslagsbreytingum og hvaða áhrif breytingarnar hafa á líffræðilega fjölbreytni, menningarminjar og sjálfbæra nýtingu auðlinda. Í samstarfi við viðeigandi aðila mun þróun vöktunaraðferða og umhverfisvísa hafa forgang svo hægt verði að fylgjast með áhrifum loftslagsbreytinga á líffræðilega fjölbreytni.“

Hæstv. forseti. Mér finnst ég ekki lifa í landi sem hefur undirritað þetta eða ætlað sér að gera það sem stendur í 3.6 kafla í metnaðarfullri áætlun Norðurlandanna í loftslagsmálum að veruleika. Þegar ég les greinargerðina með máli hæstv. umhverfisráðherra — ég biðst afsökunar á að hafa ekki verið komin í salinn þegar hæstv. umhverfisráðherra fylgdi málinu úr hlaði þannig að ég heyrði ekki ræðu hennar en ég geri ráð fyrir að inntak hennar hafi verið svipað og kemur fram í greinargerðinni — þá fyllist ég bara vorkunnsemi með Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki fyrir það að geta ekki staðið betur við bakið á félögum okkar og forkólfum í stjórnmálum á Norðurlöndunum sem hafa samið þessa áætlun sem ég hér held á í útgáfu sem kom út í íslenskri þýðingu fyrir nokkru.

Að lokum ætla ég að vitna til II. kafla í þessari áætlun, sem við erum aðilar að. Hann varðar áhrif loftslagsbreytinga á umhverfi hafsins en þar er markmiðið, með leyfi forseta:

„Að auka þekkingu á áhrifum loftslagsbreytinga á lífríki hafsins, þar á meðal á hafstrauma og vistkerfi, afleiðingar fiskveiða og fiskeldis fyrir líffræðilega fjölbreytni á Norðurlöndum og áhættu í tengslum við framandi og skaðlegar lífverur.

Kannaðar verða afleiðingar loftslagsbreytinga á lífríki hafsins. Gerð verða líkön af væntanlegri þróun og mótvægisaðgerðum sem geta dregið úr hugsanlegu tjóni.“

Þetta er eitt af þessum verkefnum sem Norðurlöndin ætluðu sér sameiginlega að fara í samkvæmt þessari áætlun. En þessa sér engan stað í málinu sem liggur hér fyrir, hvorki þess sem getið er um í kafla II eða kafla III eða kafla IV sem ég hef vitnað til í þessari áætlun. Nei, þvert á móti, ætlar ríkisstjórn Íslands að teygja og toga undanþáguákvæðið og reyna að láta líta svo út sem við getum haldið okkur fyrir innan það til ársins 2012 með því að nota meðaltalsregluna, sem henni er heimilt að gera, en eftir árið 2012 ætlar hún að tryggja frekari undanþágur til að losa enn fleiri milljónir tonna af gróðurhúsalofttegundum en íslenska stóriðjuákvæðið heimilar henni.

Leggur íslenska ríkisstjórnin fjármuni í fræðslu um þessi mál eins og Norðurlandaríkisstjórnirnar hafa lagt á herðar henni? Eða ætlar hún að leggja svo mikla fjármuni í þessar rannsóknir sem auka þekkingu okkar á áhrifum loftslagsbreytinganna? Nei. Það kemur í ljós að fjármunirnir sem þarf til að Umhverfisstofnun geti staðið undir þeim skyldum sem á hana eru lagðar samkvæmt frumvarpinu duga ekki. Hvaðan eiga peningarnir að koma, 2,5 milljón á ári á tímabilinu 2008–2013? Þeir eiga að koma frá atvinnurekstrinum. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir um kostnaðarmat þessa frumvarps að niðurstaðan sé sú að verði frumvarpið óbreytt að lögum megi gera ráð fyrir að árlegur kostnaður Umhverfisstofnunar hækki tímabundið um 2,5 millj. kr. á þessum árum, 2008–2013, eða alls um 15 millj. kr. og sömuleiðis að ríkistekjur stofnunarinnar hækki jafnmikið á móti. Allur kostnaðurinn sem þessi stefna ríkisstjórnar Íslands í loftslagsmálum útheimtir á að greiðast af atvinnulífinu, hver einasta króna. Þar er ekki orð um rannsóknir, ekki orð um fræðslu og ekki orð sem heimfæra mætti upp á þessa metnaðarfullu stefnu Norðurlandanna.

Ríkisstjórnin er að staðfesta það sem ég hef áður haldið fram og við vinstri græn höfum legið þessari ríkisstjórn á hálsi fyrir árum saman: Hún er ekki pappírsins virði í umhverfismálum. Hér er staðfestingin svart á hvítu í þessu frumvarpi.

Við vinstri græn höfum lagt fram mál á Alþingi Íslendinga á þskj. 259, sem er 256. mál þessa löggjafarþings. Það fæst auðvitað ekki tekið á dagskrá frekar en önnur stjórnarandstöðuþingmál í þessum sal. Stjórnarliðar koma því þannig fyrir að okkar málum er ýtt til hliðar. Við fáum náðarsamlegast að mæla fyrir örfáum málum. Ég held að talan yfir frumvörp stjórnarandstöðunnar eða þau þingmál sem hún fær að tala fyrir sé enn þá tveggja stafa, ég held að ég sé ekki að fara með fleipur þegar ég segi það.

Okkar tillaga er tillaga til þingsályktunar um loftslagsráð. Ég ætla að leyfa mér að eyða síðustu mínútunum af ræðu minni í að segja hæstv. umhverfisráðherra og hv. þingmönnum sem hér eru í salnum og þeim sem heyra orð mín í örfáum orðum um grunnhugmyndina að baki því þingmáli vegna þess að ég vil að það komi fram, það er mikilvægt, að hér hafa stjórnarandstöðuflokkarnir gengið fram með góðu fordæmi og sýnt hugmyndir í þessum málum, sýnt hvernig er hægt er að fara aðrar leiðir en þessi ríkisstjórn lætur sér detta í hug.

Við Vinstri græn teljum nauðsynlegt og löngu tímabært að Alþingi álykti að setja á fót loftslagsráð sem hafi með höndum þau verkefni sem okkur finnst ríkisstjórnir Norðurlandanna gera sér grein fyrir að þarf að vinna í þessum málaflokki, þ.e. aðrar en ríkisstjórn Íslands. Fyrst ber að nefna að þau ætla sér að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda og annarra efna sem geta haft skaðleg áhrif á andrúmsloft og loftslagsþróun, þ.e. að standa við skuldbindingar gagnvart loftslagssamningnum, að draga úr losun, ekki bara að binda hana í skógi eða landgræðslu og ekki bara að treysta á að það komi til bætt tækni sem bjargi skussunum. Nei, við þurfum að gera um það áætlun hvernig við drögum úr losun.

Í öðru lagi viljum við að loftslagsráðið, sem setja þarf á laggirnar að okkar mati, meti líkleg áhrif þessara loftslagsbreytinga á þjóðarhag og þjóðaröryggi. Við erum þess meðvituð að í nýlegri skýrslu IPCC, þ.e. loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna eru niðurstöðurnar svo sláandi og svo alvarlegar, ekki síst fyrir norðurheimskautssvæðið, að meðalhitaaukning á næstu öld gæti orðið, hér á Íslandi um 2,5° Celsius, á öld og meðalaukningin í úrkomu gæti orðið um 5% á öld. Það eru sláandi niðurstöður í þessari skýrslu sem við verðum að taka til okkar. Til að viðurkenna að við gerum okkur grein fyrir þeim sannleika sem í þeirri skýrslu býr þurfum við að leggja verulega vigt í það að meta þau áhrif sem þessi hlýnun kemur til með að hafa hér. Eða hvernig ætlum við að bregðast við því að á næstu 40–60 árum komi affall jökla til með að tvöfaldast á Íslandi? Hvernig ætlum við að bregðast við því? Hvað ætlum við að gera við lónin í virkjunum sem við erum með uppi á hálendi Íslands? Ætlum við að reka þetta allt á yfirfalli eða á að fara hækka stíflurnar og stækka lónin? Hvað segir þessi ríkisstjórn við þessu? Hún orðar þetta ekki, hún er ekki að hugsa um þessi mál. Hún er bara á kafi í að reyna að redda sér frekari undanþáguheimildum á næsta skuldbindingartímabili Kyoto-bókunarinnar.

Vinstri græn vilja loftslagsráð sem m.a. verði til ráðgjafar hverjum þeim sem þarf á þeirri ráðgjöf að halda, t.d. rannsóknarþörf og um viðbrögð á sviðum sem mestu varða, m.a. um mannvirkjagerð, um skipulag byggðar, um samgöngur, um atvinnuhætti og þróun lífríkisins. Ég sé ekki að þessi ríkisstjórn hafi neinar hugmyndir um að þessi störf þurfi að vinna. Við viljum líka að loftslagsráðið miðli fræðslu og ræki alþjóðatengsl sem orðið gætu viðfangsefnum ráðsins til framdráttar. Þá viljum við að loftslagsráðið beini að eigin frumkvæði tilmælum til opinberra aðila og annarra eftir því sem tilefni þykja til. Svo að fólk geri sér geri sér grein fyrir því, sem heyrir þessi orð mín, á hvern hátt við sjáum loftslagsráð fyrir okkur, hverjir eigi að eiga sæti í því, hvernig það eigi að vera skipað þá er það svohljóðandi, hæstv. forseti, eins og segir í tillögu okkar til þingsályktunar.

„Í Loftslagsráði eigi sæti, samkvæmt tilnefningu, fulltrúar þingflokka á Alþingi, Sambands íslenskra sveitarfélaga, ráðuneyta, opinberra stofnana, samtaka á vinnumarkaði og umhverfisverndar- og neytendasamtaka. Umhverfisráðherra skipi formann ráðsins og veiti því nauðsynlega aðstöðu. Kostnaður við störf ráðsins greiðist úr ríkissjóði.

Eigi sjaldnar en annað hvert ár skili Loftslagsráð skýrslu um störf sín sem verði kynnt Alþingi.

Skipan og starfshættir Loftslagsráðs skulu endurmetin ekki síðar en að fimm árum liðnum.“

Með þingsályktunartillögu okkar, hæstv. forseti, fylgir athyglisverð grein eftir Birnu Sigrúnu Hallsdóttur, sem er sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Hún fjallar þar um þessi stóru og mikilsverðu mál, þ.e. um útstreymi gróðurhúsalofttegunda, orku og iðnað, í því sambandi. Þar eru birt gröf, línurit og teikningar sem skýra á hvern hátt þessi útstreymismál eru og hvernig þau virka. Það er afar fróðleg lesning, virðulegi forseti.

Það sem skiptir mestu máli í þessum málaflokki er að mótuð sé ábyrg framtíðarstefna. Stjórnvöld þurfa að gera þjóðinni grein fyrir því hvert stefna beri í nánustu framtíð í þessum málaflokki. Þessi ríkisstjórn hefur að mínu mati enga stefnu aðra en að næla sér í frekari undanþáguheimildir fyrir tímabil Kyoto-bókunarinnar, eins og hún varði miklum fjármunum og mannauði í að kreista hið fyrra undanþáguákvæði undan nöglunum á samningsmönnum Sameinuðu þjóðanna á vettvangi loftslagssamningsins, mun hún engu til spara til þessa á næstu árum. Umræðurnar eru farnar af stað og embættismenn íslensku ríkisstjórnarinnar eflaust komnir í startholurnar með að undirbúa enn frekari undanþáguheimildir.

Ég segi, hæstv. forseti: Stefna ríkisstjórnar Íslands er til skammar, að ein af ríkustu þjóðum heims skuli ekki geta staðið bein í baki og keik með vitræna loftslagsstefnu og vitræna stefnu í umhverfismálum er bara sorglegt og aumkunarvert.