133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:01]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem sárlega vantar er hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná markmiðum sínum. Hér er talað um í stefnu ríkisstjórnarinnar að árið 2050 verði búið að draga mjög mikið úr losunarheimildum, ekki frá því eins og þær eru núna heldur eins og þær voru árið 1990. Það er því æðimikið sem þarna þarf að gerast.

Við erum að sjá margföldun á mengun frá þeim tíma hér í landinu. Bara það sem búið er að ákveða og ef fer sem horfir og sú stefna sem er í sjálfu plagginu gengur fram og ef hagkvæmt verður að flytja inn losunarheimildir til Íslands, þá munum við sjá hérna mörg álver í viðbót.

Þá spyr ég: Hvernig ætlar ríkisstjórnin að standa við markmiðin árið 2050? Það hlýtur að þurfa að svara þeirri spurningu. Það verður ekki gert með því að hafa allt galopið með þessum hætti. Það getur ekki verið. Þess vegna spyr ég: Hvernig ætla menn að taka á þeim málum?

Það eru nú ekki nema rúm 40 ár þangað til. Og reynslan er að þau fyrirtæki sem við erum að tala hér um eru rekin mjög lengi. Það er álver á Íslandi sem er um 40 ára gamalt. Við getum alveg reiknað með því að slík fyrirtæki verði hér til staðar áfram sem menn eru að byggja upp nú á tímum, verðum að minnsta kosti að gera það. Þá vantar þetta svar.