133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:05]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er örugglega rétt að við eigum meiri möguleika en aðrir. En það svarar ekki spurningunni um hvernig við ætlum að taka á þeim vanda sem stefnir í að aukist mjög mikið og stafar af útblæstri frá stóriðjufyrirtækjum. Væntanlega er ekki meiningin að það mál sé fyrir utan þetta dæmi.

Ef framtíðardraumurinn árið 2050 á að rætast hljóta menn að þurfa að horfa til þess líka hvað þarna er á ferðinni. Það er galopið fyrir að öll þessi uppbygging verði og að ríkisstjórnin virðist alls ekki ætla að taka á sig ábyrgð og ætlar ekki Alþingi ábyrgð á því hvort farið verði í þessar framkvæmdir allar, heldur er það látið laust og byggist bara á því hvort aðilar hafi áhuga og fái rafmagn til þess að bræða ál.

Þá sitjum við uppi með það að hér verður orðin margföldun á mengun vegna álframleiðslu og ég sé ekki alveg fyrir mér hvaða leiðir menn hafa til þess að bæta fyrir það ef allt slíkt á að gerast með gróðri. Ég vil benda á að það þarf 50 þúsund hektara til að koma á móti álverinu á Húsavík. Þá þarf líka að svara spurningunni um hvenær þær gróðurhúsalofttegundir losna aftur sem þannig verða bundnar?

Þetta er auðvitað ekki einfalt mál og ekki er ég maður til að svara því hvernig þessir hlutir eiga að vera í framtíðinni. En ég tel mig að minnsta kosti geta svarað því að stjórnvöld í landinu verða að taka ábyrgð á hvað verður ráðist í miklar framkvæmdir hvað varðar nýja framleiðslu á áli í landinu, ef þau ætla að láta drauminn rætast til framtíðar litið um að (Forseti hringir.) hægt verði að standa við þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sett.