133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:07]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst byrja á að taka það fram að heildarlosun okkar Íslendinga er 1/10.000 af losuninni í heiminum. Ég er ekki að segja að það sé ekki ábyrgur hlutur og eitthvað sem við eigum ekki að taka á. En þetta er hlutur okkar. Af þessum 1/10.000 hlut er losun frá álverum, ásamt byggingariðnaðinum og stóriðjunni, tæpur þriðjungur. Það er nú hlutur álveranna í þessari heildarlosun.

En það er að heyra á hv. þingmanni að hann óttist að með kaupum á losunarheimildum erlendis frá sé búið að opna fyrir einhvern ótalinn fjölda álvera á Íslandi. En þá vil ég segja í því samhengi, að ég sé engar líkur á því að við séum nokkurn tímann tilbúin að ráðast í þær virkjanir á auðlindum okkar að við getum nokkurn tíma selt orku til allra þeirra álvera sem hv. þingmaður nefnir í þessu samhengi.