133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:12]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst að öllu sé steytt á sker í þessu máli, eins og meistari Megas mundi segja. Í orði kveðnu segir ríkisstjórnin og hæstv. umhverfisráðherra að verið sé að standa við markmið Kyoto-bókunarinnar og markmið loftslagssamningsins. Á sama tíma vitum við að við Íslendingar, einir þjóða, sem höfum skuldbindingar samkvæmt Kyoto-bókuninni, fáum að auka losunina um 10% frá viðmiðunarárinu 1990. Þar að auki fáum við undanþáguákvæði upp á 1.600 þúsund tonn á ári að meðaltali í fjögur á fyrsta skuldbindingartímabilinu.

Þetta er ekki samdráttur í losun og síst af öllu þegar þessi umhverfisráðherra mælir svo fyrir því, að ofan á þessa aukningu sem við fáum samkvæmt Kyoto-bókuninni og samkvæmt undanþáguákvæðinu, þá ætlast hún til að fyrirtækin kaupi sér enn aukinn kvóta í gegnum skógrækt og landgræðslu eða með því að (Forseti hringir.) kaupa frá öðrum löndum. Heyr á endemi.