133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

losun gróðurhúsalofttegunda.

641. mál
[23:13]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að á þessum tímapunkti í umræðunni sé rétt að halda því til haga að loftslagsvandinn, losun gróðurhúsalofttegunda, er hnattrænn vandi. Það var á forsendum endurnýjanlegrar íslenskrar orku sem við fengum íslenska ákvæðið í Kyoto-bókuninni. Það var einungis á þeim forsendum sem við fengum þetta ákvæði og eitt af því sem er áskilið og þetta eru ströng skilyrði, var að við skuldbundum okkur jafnframt til að nota ávallt bestu fáanlegu tækni.

Það er rétt í þessu samhengi að nefna, af því að þingmenn, t.d. hv. þm. Jóhann Ársælsson, hafa aðeins velt því upp hvernig við ætluðum að ná markmiðum okkar, að þeim ströngu markmiðum sem voru sett, bæði í álverinu í Straumsvík og Norðuráli, miðað við losunina hjá þeim árið 1990, höfum við náð. Markmiðið um losun undir 0,14 tonn á framleitt tonn af áli náðist hjá Norðuráli árið 2003 og það er aðeins um (Forseti hringir.) 1/20 af því sem var 1999. Margt er því hægt að gera með bættri tækni. (Forseti hringir.)