133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

skattlagning kaupskipaútgerðar.

660. mál
[23:18]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að komið er fram frumvarp á hv. Alþingi sem getur orðið til þess að hér á landi verði aftur skráð kaupskip undir íslenska skipaskrá og það stefni til þess að farmenn sem starfa á þeim skipum greiði hér skatta og skyldur eins og kveðið er á um í frumvarpinu.

Verið er að bregðast við því sem upp hefur komið vegna þess hver þróunin hefur orðið á þessum atvinnumarkaði á undanförnum áratugum og nú er svo komið, hæstv. forseti, að öll kaupskip Íslendinga eru skráð undir erlendum fána og starfsmenn skipafélaganna greiða sína skatta og skyldur erlendis.

Nýlega eða fyrir ekki mörgum árum fóru Færeyingar og Írar þá leið sem hér er verið að leggja til og hafa náð þeim árangri að þar hefur skipastóllinn stækkað verulega og skipum undir fána þessara ríkja hefur fjölgað, m.a. hafa íslensk skip verið skráð í Færeyjum svo dæmi sé tekið. Ég tel að það sé meira en tímabært að bregðast við með þeim hætti sem hér er verið að leggja til og reyna þannig að tryggja að þessi atvinnugrein rísi aftur til vegs og virðingar hér á landi undir íslenskum fána og að margfeldisáhrifin sem af þessum störfum verða í þjóðfélaginu fái aftur notið sín fyrir íslenskt þjóðfélag í framtíðinni. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að þær reglur sem hér er verið að móta um það hvernig þetta umhverfi geti orðið verði til þess að Ísland verði á ný samkeppnisfært í siglingum að og frá landinu.