133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

skattlagning kaupskipaútgerðar.

660. mál
[23:21]
Hlusta

Guðmundur Hallvarðsson (S):

Virðulegi forseti. Ég lýsi ánægju minni yfir því frumvarpi sem hér er lagt fram um skattlagningu kaupskipaútgerðar og tek undir með hv. síðasta ræðumanni. Um leið og ég fagna því þakka ég hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa komið með þetta frumvarp sem lengi hefur verið í deiglunni og mikið rætt, mikið deilt um og mikið tekist á um meðal sjómanna og útgerða annars vegar og ríkisins hins vegar, ríkisvaldsins. Hér er á ferðinni mikið þarfaþing og ekki þarf annað en að vitna til þess merkilega hlutar sem gerst hefur í sambandi við skráningu á íslenska flugflotann. Það eru einar 80, 90 þotur sem eru skráðar á Íslandi en tæplega helmingur er í förum til og frá landinu. Þetta er því hið mesta þarfaþing og auk þess að efla kaupskipaútgerð eins og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á skiptir ákaflega miklu máli að í landinu haldist áfram sú þekking og reynsla sem hefur skapast meðal íslenskra farmanna.