133. löggjafarþing — 83. fundur,  1. mars 2007.

náttúruvernd.

639. mál
[23:28]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim þætti þessa frumvarps sem lýtur að aukinni vernd fyrir steindir í náttúru Íslands og segi að það er bara vonum seinna að þessi ákvæði skuli vera sett inn í lög. Undanfarið höfum við verið að reyna að vekja athygli á þessu, m.a. með því að auðlindanefndin, sem skilaði skýrslu sinni í október sl., vakti athygli á því að steindir nytu ekki nægilegrar verndar í íslenskri löggjöf og er það vel að hér sé verið að bæta úr hvað þetta varðar.

Hins vegar er verið að ræða hér um kæruaðild þeirra sem eiga hagsmuna að gæta í stjórnvaldsákvörðunum er lúta að umhverfismálum. Nú er það svo, eins og segir í greinargerð með þessu frumvarpi, að á sviði umhverfisréttarins er viðurkennt að kæruaðild geti verið rýmri í umhverfismálum en á öðrum sviðum og á sviði náttúruverndar gildir svokallaður almannaréttur, þ.e. réttur almennings til umferðar um landið og náttúruupplifunar og það þyki eðlilegt að kæruréttur nái í náttúruverndarlögum einnig til umhverfisverndarsamtaka og útivistarsamtaka.

Þetta er auðvitað af hinu góða líka en á sama tíma vil ég benda á að réttur almennings til að lögsækja stjórnvöld vegna stjórnsýsluákvarðana í umhverfismálum hefur verið þrengdur í löggjöf upp á síðkastið fyrir tilstilli núverandi ríkisstjórnar. Það hefur verið gert með breytingu á einkamálalögum þar sem þeir sem hingað til hafa getað sótt mál af þessu tagi í gegnum gjafsóknarákvæði einkamálalaga geta það ekki lengur. Það má rifja það upp að hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason mælti fyrir frumvarpi eða í gegnum þingið fór frumvarp á hans vegum á árunum 2003–2004, þ.e. á 130. löggjafarþingi, þar sem þessi gjafsóknarákvæði voru þrengd til muna. Stjórnarandstaðan mótmælti því harðlega og flutti breytingartillögu sem gengi út á það að meginreglur gjafsókna yrðu með því móti að almenn heimild til gjafsóknar á grundvelli þess að úrlausn máls hefði verulega almenna þýðingu er varði verulega miklu fyrir atvinnu, félagslega stöðu eða aðra einkahagi umsækjenda kæmi aftur inn í lögin og við höfum verið þess fýsandi að gera breytingu á einkamálalögunum hvað þetta varðar.

Ég er enn við sama heygarðshornið í þessum efnum. Ég held að þessi stjórnvöld standi sig ekki nægilega vel hvað það varðar að heimila eða tryggja það að aðilar hafi möguleika á því að leita réttar síns og fá réttláta málsmeðferð fyrir dómi þegar um er að ræða mál er varða umhverfið. Ástæðan er sú að ríkisstjórnin hefur leyft sér að lögfesta einungis eina af þremur stoðum Árósasáttmálans svonefnda. (Gripið fram í.) Hún hefur aðeins lögfest eina af þremur stoðum, hún hefur lögfest stoðina sem varðar aðgang að upplýsingum en enn hefur hún ekki sinnt því að lögfesta þá stoð sem á að tryggja aðild að ákvarðanatöku. Það er óbætt hjá garði. Ef hæstv. ráðherra lítur svo á að með þeirri breytingu sem hér er gerð á 74. gr. laganna sé hún að lögfesta þriðju stoð Árósasamningsins dreg ég í efa að svo sé. Þriðja stoð Árósasamningsins gengur út á það að almenningur eigi að eiga möguleika á að fá réttláta málsmeðferð í málum er varða umhverfið. Það skiptir verulega miklu máli að það séu hagsmunir sem eru tryggðir einstaklingum en ekki bara umhverfisverndarsamtökum sem eru þá háð þeim takmörkunum sem getur að líta í þessu frumvarpi og reyndar í lögunum um mat á umhverfisáhrifum eins og þeim var breytt síðast. Þar er að mínu mati þrengt um of og ekki tryggt að einstaklingar sem telja sig hafa því hlutverki að gegna að vera málsvarar náttúrunnar og málsvarar náttúruverndar geti lögsótt á grundvelli Árósasamningsins og þeirrar hugmyndafræði sem að baki honum liggur.

Ég tel að hér vanti ákveðna þætti upp á og kem til með að sjá til þess eða mun mælast til þess að málið verði skoðað mjög vel í umhverfisnefnd og við eigum eftir að sjá hvaða niðurstöðu málið fær síðan á endanum eftir umfjöllun nefndarinnar.