133. löggjafarþing — 83. fundur,  2. mars 2007.

mannvirki.

662. mál
[00:03]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hæstv. ráðherra lýsti því yfir að hún ætlaðist ekki til að þingið afgreiddi þessi frumvörp, þau tvö sem hún mælti fyrir og væntanlega ekki heldur það þriðja sem hún mælir fyrir á eftir. Ég verð að viðurkenna að mér þykir nokkuð ankannalegt að vera staddur hér um miðja nótt, sem þannig var að fornu, fimm mínútur yfir tólf, til að fjalla við 1. umr. um frumvörp frá hæstv. ráðherra sem ekki er ætlast til þess að gangi fram. Mér þykja það furðuleg vinnubrögð.

Ég veit að þegar málið var sett á dagskrá var væntanlega gert ráð fyrir að fjallað yrði um það um kvöldmatarleytið en það hefur dregist. Ég verð að gera þá athugasemd við fundarstjórn forseta, þótt ég sé ekki að tala undir þeim lið. Ég hefði talið að hann hefði átt að fresta þessum málum þangað til að menn gætu rætt þau sæmilega vakandi.

Hér er mikill frumvarpsböggull á ferð og vel þess virði að hann sé vel ræddur og kannski gerum við það hér, að ræða hann nokkuð fram í nóttina, þótt varla verði hann að lögum fyrr en á nýju kjörtímabili.

Þetta eru frumvörp til skipulagslaga, til byggingarlaga og laga um brunavarnir. Ávöxtur mikils starfs fagmanna sem ekki er hægt annað en að hrósa við fyrstu sýn að minnsta kosti, samtals yfir hundrað blaðsíður í útprenti. En þetta kemur það seint inn á þingið að það er að minnsta kosti ekki hægt að gera ráð fyrir að þingmenn hafi mótað sér fullkomlega afstöðu til þess í 1. umr. enda er það ekki vaninn um mál af þessu tagi.

En ég verð hins vegar að segja að það er til fyrirmyndar, ég hrósa umhverfisráðherra og hennar mönnum fyrir það, að þessi frumvörp hafa legið á netinu á vef umhverfisráðuneytisins frá því í sumar og fengið þar umsagnir og ábendingar sem að einhverju leyti hefur verið sinnt. Þó er ekki ljóst að hve miklu leyti tillit hefur verið tekið til ábendinga, um það fengust ekki nákvæmar upplýsingar úr umhverfisráðuneytinu í dag þegar eftir því var leitað, hvernig það hefði breyst frá því í sumar.

Hér er gert ráð fyrir verulegum skipulagsbreytingum. Í fyrsta lagi er lagabálkinum skipt í tvennt og þar með greind í sundur stjórnsýsla í skipulagsmálum annars vegar og stjórnsýsla í byggingarmálum hins vegar sem aftur á móti er tengd brunavörnum, sem er reyndar eitt af elstu hlutverkum hins opinbera á Íslandi ásamt fátæktarframfærslunni. Hrepparnir voru í upphafi stofnaðir í því skyni að sinna brunavörnum og sem eins konar tryggingarfélag eftir slík óhöpp.

Í samræmi við þetta er búin til ný ríkisstofnun og önnur lögð niður. Hér þarf að athuga vel hverja grein og átta sig um leið á heildarsamhengi hlutanna og getur reynst áhugamanni nokkuð snúið í fljótu bragði. En ég get sagt það hér að ég hef ekki fyrir mína hönd og míns flokks alvarlegar athugasemdir við þessi frumvörp í fyrstu lotu.

Ég verð þó að nefna að það þarf að íhuga hið nýja byggingaröryggisgjald sem þrátt fyrir fögur orð hæstv. ráðherra er töluvert hærra en brunavarnagjaldið. Enda von því þetta nýja byggingaröryggisgjald á að halda uppi stofnun sem er öðruvísi en hin fyrri. Við bætast heilir 22 starfsmenn frá því sem nú er, væntanlega allir sérfræðimenntaðir. Í umsögn fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins er gert ráð fyrir að 136 millj. kr. sem bætast við ætlaðan rekstrarkostnað þessarar nýju stofnunar. Það þarf að sannfæra okkur og þjóðina um að á þessu fólki þurfi öllu að halda áður en heimild er veitt til að ráða það.

Ég ætla aðallega að fjalla um skipulagsfrumvarpið og reyndar að mestu um tiltekinn þátt þess. Það er margt jákvætt í skipulagsfrumvarpinu sem maður rekur strax augun í. Gert er ráð fyrir aukinni áherslu á samráð við almenning um allar skipulagsáætlanir. Hjá okkur hefur skort á þetta, jafnvel þótt lög fyrirskipi ákveðið ferli er því sinnt með þeim hætti að almannasamráð verður oft ákaflega fátæklegt með þeim afleiðingum að hér skapast átök og deilur, jafnvel á síðustu stundu, á þeirri elleftu og jafnvel þegar komið er fram yfir alla ákvarðanatöku, sem aftur veldur sárindum og leiðir til þess að fólki finnst skortur á raunverulegu lýðræði. Síðasta dæmið er reyndar skammt undan, í Álafosskvosinni þar sem glaðbeittur meiri hluti sinnti ekki umkvörtunum og eðlilegri andstöðu íbúa í Mosfellsbæ fyrr en hann hreinlega gafst upp á stríði sínu við íbúana. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa nú dregið til baka, að minnsta kosti að sinni, ákvarðanir sínar um eyðileggingu í Álafosskvosinni.

Það er líka jákvætt við þetta frumvarp að lögð er áhersla á að útlit bygginga og form eru hluti af skipulagsferlinu. Þótt ekki megi skerða um of frelsi manna til að byggja eins og þeim sýnist þá verða að vera einhver ráð til að hindra skipulagsslys, ekki bara einstaklinga, heldur líka arkitekta og framkvæmdarmanna í gömlum bæjarkjörnum og reyndar í nýjum hverfum líka. Það má nefna ýmis dæmi. Oft er nefnt dæmi um þetta í atvinnuhverfinu nýja í Reykjavík sem kennt er við Höfða. Svæðisskipulagi sem á að vera um sameiginlega hagsmuni á að fylgja umsjón í nefnd. Það er jákvætt að svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins verði samkvæmt þessu frumvarpi, ef að lögum verður, skylt en ekki bara heimilt.

Einnig er sérstakt lagaákvæði um grenndarkynningu og gert skylt að grenndarkynna framkvæmda- og byggingarleyfi, sem er jákvætt. Ég held að það sé líka ástæða til að fagna því sérstaklega að Skipulagsstofnun fær samkvæmt þessu skýra heimild til að stöðva framkvæmdir sem brjóta í bága við skipulag eða er farið í án leyfis. Það má líka fagna því að umhverfisráðherra tekur samkvæmt þessu frumvarpi við skipulagsráðum á Keflavíkurflugvelli af utanríkisráðherra. Það er tímanna tákn og vísar vonandi veginn.

Ég set fyrirvara um ákvæði sem kveður á um úrskurð ráðherra þegar upp kemur ágreiningur milli sveitarfélaga og eitt aðalskipulag rekst á annað. Þetta er ekki heppileg staða. Ég efast mjög um að þetta ákvæði leiði til farsællar lausnar á þeim deilum sem upp koma af því tagi. Ég tek þar undir álit sveitarstjórnarmanna í þeirri nefnd sem frumvarpið samdi.

Merkastu efnisatriði skipulagsfrumvarpsins, og að ég hygg lagabálkanna í heild sinni, eru ákvæðin um landsskipulag. Sem kunnugt er hefur íslenskt samfélag sérstöðu að þessu leyti. Í öllum grannlöndum, eða nánast öllum, er æðsta skipulagsstigið einhvers konar landsskipulag þar sem höfuðlínur eru dregnar fyrir svæðis- eða aðalskipulagsáætlanir. Hér var landsskipulag lengi fyrirhugað æðsta skipulagsstig og oft nefnt á 9. áratugnum samfara hugmyndum um landnýtingaráætlun fyrir allt Ísland, þó einkum hálendið og önnur náttúrusvæði.

Ásamt fagmönnum í skipulagi voru þingmenn og ráðherrar jafnaðarmanna hér fremstir í flokki og í umræðunni um skipulag miðhálendisins, í langvinnum umræðum veturinn 1998–1999, nefndu Samfylkingarmenn landsskipulag sem augljósan kost við tertusneiðafyrirkomulagið sem ofan á varð. Ég fagna því að hugmyndir um landsskipulag eru nú endurvaktar í frumvarpsdrögum þessarar nefndar á vegum umhverfisráðherra.

Hugmyndir um landsskipulag gera í megindráttum ráð fyrir því að ríkisvaldið, ríkisstjórn, Alþingi og helstu skipulagsstofnanir hljóti að taka ákvarðanir sem varða almannahag og ekki eingöngu íbúa eins sveitarfélags í aðalskipulagi eða fleiri saman í svæðisskipulagi. Með landsskipulagi er hægt að taka ákvarðanir um nýtingu á einstökum svæðum en miklu fremur er rétt að ætla því að samræma margs konar áætlanagerð á vegum ríkis og sveitarfélaga og sinna leiðsagnarhlutverki fyrir svæði eins og aðalskipulagsgerð.

Landsskipulag hlýtur að gera grein fyrir megindráttum í landnýtingu og mæla fyrir um heildarstefnu í náttúruvernd, þróun byggðar og atvinnuvega, í orkumálum, samgöngum, fjarskiptum o.s.frv. Það er afar mikilsvert að með landsskipulagi getur orðið til sú heildstæða landnotkunaráætlun sem margir hafa óskað eftir í deilum og átökum síðustu áratuga um nýtingu auðlinda og náttúruvernd.

Í Fagra Íslandi, stefnuplaggi okkar samfylkingarmanna um meginatriði í umhverfisstefnu þar sem við fjöllum m.a. um náttúruvernd, loftslagsmál og ákvörðunarrétt almennings, gerum við ráð fyrir því að rammaáætluninni um náttúruvernd verði hrundið í framkvæmd, bæði með sérstökum lögum, í náttúruverndaráætlunum sem þegar eru komnar í gang og með ákvörðunum í landsskipulagi.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að landsskipulag sé miðað við tólf ár í senn en umhverfisráðherra leggi fram nýja tillögu að landsskipulagi fyrir Alþingi eftir hverjar þingkosningar. Þannig má segja að landsskipulagið sé endurnýjað á fjögurra ára fresti og sú endurnýjun verður eitt af höfuðverkefnum nýrrar ríkisstjórnar og nýs þingmeirihluta á þinginu hverju sinni. Áður en tillagan er lögð fyrir Alþingi á að auglýsa eftir athugasemdum almennings og óska umsagna sveitarfélaga og hagsmunaaðila. Ráðherra ákveður síðan svokallaðar áherslur stefnunnar en það er gert ráð fyrir að fjallað sé um mismunandi þætti hverju sinni. Í greinargerð, og í ræðu hæstv. ráðherra, var t.d. nefnt dæmi af svæðisskipulagi miðhálendisins sem ætlað er að verði fyrsta verkefni þessa landsskipulags. Það er meiri háttar mál.

Í greinargerðinni er einnig bent á dönsk ákvæði um staðarval verslunarmiðstöðva og um frístundabyggð, sem dæmi um viðfangsefni landsskipulagsstefnu í grannlöndunum, hvort tveggja viðfangsefni sem við höfum skilið eftir fyrir tilviljanir að ráðskast með.

Í umræðunni hefur verið nefnt að okkur vantar skýrar skilgreiningar og skil milli þéttbýlis og dreifbýlis einmitt hvað varðar byggðarkjarna sem nú spretta upp nokkuð skipulagslaust hingað og þangað. Frístundahús, íbúðarhús eða hvorttveggja. Það hefur líka verið talað um að í landsskipulagi gæti verið æskilegt að ákvarða t.d. hvar eru skilyrði til skógræktar og hvar skógrækt á ekki heima. En nú er skógrækt, með fullri virðingu fyrir þeirri göfugu iðju, stunduð hér um bil hvar sem hver vill og víða án nægilegrar forsjár.

Það er rétt að gera sér grein fyrir því að landsskipulag mundi að einhverju leyti minnka vald sveitarstjórna. Hluti þess ákvörðunarvalds sem nú felst í aðalskipulagi þeirra hverfur til þings og ráðherra, en þar skiptir auðvitað öllu máli hvernig valdsvið ráðherra og þings verður skilgreint nákvæmlega og hvernig þau skil verða í reynd. Þar á móti mundi landsskipulagið aðstoða sveitarstjórnir og íbúa sveitarfélaganna við skipulagsákvarðanir sínar og væntanlega bæta skipulagsferlið allt faglega sem að lokum ætti að koma sveitarstjórnarmönnum og íbúum og almenningi í sveitarfélögunum vel.

Hvað vernd náttúrusvæða varðar er landsskipulag eitt og út af fyrir sig engin töfralausn. Meira að segja má nefna nýlegt dæmi. Þjórsárver, þar sem mikil völd ráðherra og þingmeirihluta með landsskipulagi hefðu sennilega orðið til tjóns. Þjórsárver eru enn óspillt fyrst og fremst vegna þess að íbúar eins sveitarfélags, Gnúpverjar, sem raunar hafa síðan sameinast Skeiðamönnum, héldu haus. Það er ekki meiri hluta á Alþingi að þakka. Það er ekki ríkisstjórn eða ráðherrum að þakka.

Svipaðar hugleiðingar vakna raunar þegar vart verður við að samfara landsskipulagi á að leggja niður samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins sem hefur reynst vel þrátt fyrir ýmsar hrakspár m.a. hjá mönnum sem mér tengjast, sem voru eðlilegar á þeim tíma. Ég held að við verðum að athuga mjög vandlega hvernig því á að koma fyrir og hvort það væri ekki rétt að sú nefnd eða slík nefnd haldi áfram að hafa hlutverk í þessu kerfi þótt auðvitað sé það minna eða með öðrum hætti þegar fjallað er um málin í landsskipulagi.

Það er ekki ótvírætt gagn eða sjálfkrafa ávinningur fyrir sjónarmið náttúruverndar og umhverfisgæslu að hafa landsskipulag sem æðsta skipulagsstig. Hins vegar eru það ótvíræðir kostir að ríkisstjórn og Alþingi mundu með þessum hætti fjalla á opinn og skýran hátt um almannahag í umræðu um landsskipulag, einkum ef réttur almennings til þátttöku er tryggður og aukinn frá því sem nú er. Með þessari skipan má m.a. gera ráð fyrir því að landsskipulag og almannahagsmunir um landnýtingu yrðu í auknum mæli pólitískt ákvörðunarefni og að stjórnmálamenn yrðu að gera kjósendum grein fyrir afstöðu sinni til verkefna og viðfangsefna landsskipulags við hverjar kosningar. Það yrði mikil framför frá ástandinu núna þar sem heildarskipulag landsins og afdrif merkilegra náttúrusvæða ráðast meira og minna utan við hin lýðræðislegu ferli sem við höfum þó komið okkur upp.

Í höndum ríkisstjórnar og þingmeirihluta sem hefur stuðning almennings við náttúruvernd og skynsamlega auðlindanýtingu getur landsskipulag verið prýðilegt verkfæri til að samræma náttúruvernd áætlun um atvinnuuppbyggingu og orkumál. Með landsskipulagi er t.d. hægt að ákveða og samræma vernd utan sérstakra verndarsvæða sem hér hefur verið ákveðið vandamál, t.d. þau svæði sem við samfylkingarmenn höfum talað um að njóta eigi svokallaðrar biðverndar meðan tekin er ákvörðun um landnýtingu þeirra. Í landsskipulagi er líka hægt að leggja línur um ákveðnar tegundir náttúrusvæða annars vegar og menningarsvæða hins vegar, t.d. landbúnaðarsvæða sem nú eru í mikilli óvissu vegna óskipulegrar frístundabyggðar og skógræktar og annarra tímans tákna.

Forseti. Það vakna ótal spurningar þegar gægst er ofan í þennan texta um frumvarp að skipulagslögum og hina textana tvo sem hér eru til umræðu. En í heild tel ég að þetta frumvarp sé skref fram á við og mér sýnist að megintillögur frumvarpsins, ekki síst um landsskipulagið, falli að stefnu jafnaðarmanna fyrr og síðar í skipulagsmálum. Það skiptir mestu máli að með þessum hætti gæti landnýting orðið pólitískt viðfangsefni sem væri verkefni allra landsmanna. Skipulagsmál gætu orðið röklegri og lýðræðislegri og skipulagið sem slíkt, skipulagsáætlanirnar, gætu orðið þjált verkfæri til að koma fram almannahagsmunum í sátt við okkar fagra Ísland.