133. löggjafarþing — 83. fundur,  2. mars 2007.

mannvirki.

662. mál
[00:22]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Álafossmálið nefndi ég sem dæmi um að lýðræðislegra leikreglna í ákvörðunum um skipulagsmál hefði ekki verið gætt. Ég held að ég geti með reistu höfði staðið við þá ályktun mína. Ég verð hins vegar að fagna því, þó að ég kunni að hafa skriplað á skötunni með nákvæman gang málsins, að meiri hlutinn í Mosfellsbæ hefur séð sitt ráð óvænna og a.m.k. að sinni stöðvað þær framkvæmdir sem stóðu yfir.

Hvort sem þetta frumvarp leysir þann vanda eða ekki tel ég að aukin áhrif almennings og þéttari ferill við skipulagsákvarðanir hljóti að vera öllum til heilla. Það verður að stöðva ofríki og framferði sem jaðrar við valdníðslu af því tagi sem meiri hlutinn í Mosfellsbæ hefur sýnt í þessu sérstaka máli sem kemur auðvitað miklu fleirum við en íbúum Mosfellsbæjar. Álafosskvosin er einn af merkustu blettum hér á höfuðborgarsvæðinu vegna mikilvægis síns fyrir iðnsöguna, fyrir utan hvað þar er indælt að vera þegar fólki er boðið þangað og óvænt að koma inn í þennan litla reit með þessa merkilegu sögu.