133. löggjafarþing — 83. fundur,  2. mars 2007.

mannvirki.

662. mál
[00:36]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekki með hýrri há að maður komi í ræðustól klukkan að verða eitt að nóttu til að ræða tvö jafnyfirgripsmikil og mikilvæg mál og hér eru til umfjöllunar. Ég vil undirstrika að mér þykir enginn sómi að því fyrir Alþingi Íslendinga að bera það á borð fyrir okkur og þjóðina að gera þetta með þessum hætti sem hér er verið að gera, því þessara frumvarpa hefur verið beðið nokkuð lengi. Eins og kemur fram í greinargerð með þessum málum var skipuð nefnd árið 2002 sem fékk það verkefni að ráðast í heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, og síðan hefur vinna þeirra nefndar staðið sleitulaust yfir við að koma þessum málum í þann búning sem við fáum að líta þau hér og nú.

Mér finnst líka nokkurt umhugsunarefni, hæstv. forseti, að hæstv. umhverfisráðherra skuli leggja til að málin fari í nefnd eingöngu til að nefndin geti sent þau út til umsagnar núna þegar fjórir eða fimm þingfundardagar eru eftir fram að þinglokum, þegar til þess er litið að málin hafa verið opin á heimasíðu umhverfisráðuneytisins til umsagnar fyrir áhugasama aðila, ég veit ekki nákvæmlega í hversu langan tíma en í máli hæstv. umhverfisráðherra kom fram að 160 aðilum var gefinn kostur á beinlínis að gefa umsögn um málin og 70 aðilar sendu inn umsagnir. Því skil ég ekki alveg tilganginn í að koma þessum málum hingað fyrir Alþingi og ræða þau hérna um miðja nótt til þess eins að þau verði send út til umsagnar til að öllum líkindum sömu aðila og eru nú þegar búnir að gefa umsagnir um málið. Ég spyr því, hæstv. forseti: Hvers lags hringavitleysa er þetta eiginlega? Mér þykir það mjög undarleg ráðstöfun og undarlegt ráðslag og Alþingi ekki til sóma. Ég veit ekki hvort hæstv. forseti ætlast til þess að hér séu fluttar vitrænar ræður eða að hér sé yfir höfuð efnt til almennra umræðna um málin, en það veit auðvitað hver sem lítur yfir þessi frumvörp að hér er fullt tilefni til að stunda langa umræðu og ég er sannfærð um að fjöldi þingmanna vill taka þátt í þeirri umræðu, kannski ekki klukkan að verða eitt um nótt, en efnislega er fullt tilefni til að flokkarnir taki pólitíska afstöðu til þessara mála og fái að skiptast á skoðunum við 1. umr. en mér líst þannig á að það sé ekki heimilað.

Skipulagsmál, virðulegi forseti, eru eitt af stærstu átakamálum samtímans. Nægir að nefna ágreiningsmál sem risið hafa upp í kringum nýleg skipulagsmál. Við skulum nefna virkjanir í neðri hluta Þjórsár. Við getum nefnt Heiðmörkina og deilur milli Reykjavíkurborgar og Kópavogs. Við getum nefnt nýfallinn úrskurð hæstv. umhverfisráðherra um veg í gegnum Gufudalssveit á Barðaströnd, þar sem fórna á náttúrulegum birkiskógi undir vegarstæði, að öllum líkindum af hagkvæmnisástæðum, mál sem menn deila um enda gengur þar hæstv. umhverfisráðherra gegn niðurstöðu Skipulagsstofnunar sem hefur það lögbundna hlutverk að veita umsagnir, úrskurði og álit í skipulagsmálum og trúlega er hæstv. umhverfisráðherra ekki búin að bíta úr nálinni með það mál. Við getum líka nefnt mál sem hv. þm. Mörður Árnason nefndi áðan, Álafosskvosina og deilur sem hafa staðið um það svæði undanfarið. Til að öllu sé til haga haldið í þeim efnum, vegna þess að hér urðu orðaskipti milli tveggja þingmanna áðan um Álafosskvosina og skipulagið þar og hv. þm. Mörður Árnason orðaði það svo að nú hefði meiri hlutinn í Mosfellsbæ látið af ofríki sínu og valdníðslu í því máli og undirstrikaði hvaða flokkar það væru sem færu með meirihlutavald í Mosfellsbæ, þá langar mig til að árétta það hér til að málið sé ekki skilið eftir þannig eins og hv. þm. Mörður Árnason virðist ætla að gera, að fulltrúar allra flokka í Mosfellsbæ hafa komið að því máli á einhverjum stigum og allir hafa þeir samþykkt þá framkvæmd sem hafin var í Álafosskvosinni. Með því að ég skuli segja þetta er ég einungis að undirstrika það að þar með eru taldir fulltrúar Samfylkingarinnar. Með þessu er ég ekki að segja að ég sé sátt við framkvæmdina eða hugmyndina um tengibraut í gegnum Álafosskvos og inn í Helgafellshverfi. Þvert á móti. Ég hef alla tíð haft efasemdir um þá framkvæmd og lít þess vegna sömu augum á málið og hv. þm. Mörður Árnason sem fagnaði þeirri niðurstöðu sem nú liggur fyrir og ég vona sannarlega að það verði endanleg niðurstaða í málinu.

Ég vil taka undir það sem hér hefur verið sagt varðandi landsskipulagsáætlun. Hún er óneitanlega eitt það merkasta sem þetta frumvarp hefur að geyma, þ.e. ákvæði um samræmda skipulagsáætlun til 12 ára sem Alþingi verður gert að samþykkja í formi þingsályktunartillögu að tillögu umhverfisráðherra. Landsskipulagsáætlunin er að mínu viti tæki sem kemur til með að gefa okkur möguleika á að taka vitrænar ákvarðanir í auknum mæli um skipulagsmál og fara með þau mál inn í hið heildstæða ferli sem við Vinstri græn höfum ævinlega kallað eftir í skipulagsmálum. Nú hafa verið nefndar við umræðuna umræður eða þau frumvörp sem fóru í gegnum þingið á árunum 1998–1999. Annars vegar var þar um að ræða mál sem fjallaði um skipulag miðhálendisins og hins vegar um þjóðlendurnar. Ég held að full ástæða væri til að rifja upp við umræðuna það sem þá fór fram í þingsölum. Þá voru afar mikilvægar ákvarðanir teknar varðandi skipulagsmál, sérstaklega skipulagsmál í óbyggðum Íslands, öræfunum, hálendinu og átökin voru talsverð og sjónarmiðin misjöfn. Ég er ekki alveg viss um að jafnaðarmenn, skiljist og lesist alþýðuflokksmenn, eigi allan heiðurinn af því sem þá fór í gegn eða endanlega varð niðurstaðan. Mér er ekki örgrannt um að ákveðnir fyrirrennarar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í stjórnmálum, sem þá sátu á Alþingi, hafi átt þar drjúgan hlut að máli svo ekki sé meira sagt.

Um þetta mætti vissulega hafa langt mál, skipulag miðhálendisins og það hvernig til hefur tekist með samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins hingað til og sömuleiðis um þjóðlendurnar. Þjóðlendulögin komu auðvitað þar inn í því að þessi tvö mál héldust í hendur í gegnum þingið og voru nánast sitt hvor hliðin á sama teningnum. En ég ætla ekki að fara nánar út í það tímans vegna af því að ég geri mér grein fyrir að hér sé fólk orðið fremur framlágt og bíði eftir atkvæðagreiðslum sem mér skilst að séu í uppsiglingu.

Markmiðssetning frumvarps til skipulagslaga er að mörgu leyti mjög góð og vel orðuð. Liggja talsverðar pælingar að baki og yfirlega þeirra sem hér hafa um vélað. Í fyrsta lagi er markmiðið að þróun byggðar og landnotkun á landinu öllu verði í samræmi við skipulagsáætlanir þar sem efnahagslegar, félagslegar og menningarlegar þarfir landsmanna, heilbrigði þeirra og öryggi er haft að leiðarljósi. Og sömuleiðis að stuðla eigi að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja varðveislu náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Ég fagna því að sjálfbær þróun skuli rata inn í markmiðssetningu frumvarpsins en vil um leið minna á að þá er orðið afar mikilvægt að koma hér í gegn frumvarpi til laga um meginreglur umhverfisréttar þar sem reglan um sjálfbæra þróun er skilgreind og síðan þegar búið væri að lögfesta meginreglur umhverfisréttar í almennri löggjöf, eins og þeirri sem hæstv. umhverfisráðherra talaði fyrir fyrir um tveimur vikum, þurfum við auðvitað að ganga lengra og tryggja það að sjálfbær þróun verði útfærð í annarri lagasetningu, í öðrum lögum sem tryggi endanlega sess hennar í löggjöf á Íslandi. Er það ekki seinna vænna því að eins og við vitum er hugmyndin um sjálfbæra þróun og reglan um sjálfbæra þróun hluti af Ríó-yfirlýsingunni sem samþykkt var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna árið 1992. Það er því sannarlega orðið tímabært að tryggja það að hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar nái fram að ganga og skilningur laganna verði samræmdur og staðfestur en á það hefur verið bent, m.a. af Ríkisendurskoðun, að þar skorti töluvert upp á.

Varðandi d-liðinn í markmiðssetningu laganna langar mig til að gera athugasemd. D-liðurinn er svohljóðandi eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta:

„d. að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana.“

Mig langar til að spyrja hæstv. umhverfisráðherra hvort hún líti svo á að með þessum d-lið í frumvarpinu sé verið að lögfesta þriðju stoð Árósasamningsins, og af því að ég hélt að það yrði lengri umræða um málið sem við ræddum hér á undan, þ.e. frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, 639. mál, að hæstv. umhverfisráðherra svaraði mér þeirri spurningu, þ.e. hvort hér sé að hennar mati verið að lögleiða stoð Árósasamningsins um samráð og aðkomu almennings að ákvarðanatöku og hvort það sé skilningur hæstv. ráðherra að með 639. máli sé verið að lögfesta þá stoð Árósasamningsins sem lýtur að réttlátri málsmeðferð. Ég tel afar mikilvægt að þau svör liggi fyrir í kvöld og áður en þessi mál fara til nefndar og hvaða skilning hæstv. ráðherra leggur í þetta tvennt. Er hæstv. ráðherra að hennar mati að lögleiða eða leggja til að lögfestar verði þessar tvær stoðir Árósasamningsins sem við eigum eftir að lögfesta?

Síðan er lokatöluliðurinn í markmiðssetningu laganna, með leyfi forseta:

„e. að tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar við gerð skipulagsáætlana varðandi útlit bygginga og form og aðgengi fyrir alla.“

Ég ætla að taka undir það sem hefur verið sagt áður um mannvirkjamálin og það hversu pottur virðist brotinn í þeim efnum og hversu mörg dæmi hafa komið upp á síðkastið í gegnum fjölmiðla til okkar um að ekki hafi verið nægilega vandað til bygginga og að ekki sé vanþörf á að taka þar fastar á málum. Að þeim töluðum orðum fagna ég megintilgangi frumvarpsins um mannvirki af því að ég sé ekki betur en að taka eigi mjög hraustlega á málum og lýsi því yfir að ekki virðist vera vanþörf á. Þó langar mig til að gera eina athugasemd við frumvarp til laga um mannvirki. Hún lýtur að rafmagnseftirliti í byggingum. En í greinargerð frumvarpsins kemur fram að á starfstíma nefndarinnar hafi þau sjónarmið komið fram að ástæða væri til að ný byggingarlög fjölluðu um öll mál er vörðuðu öryggi bygginga og endurskoðunarnefndin hafi kynnt sérstaklega fyrir umhverfisráðuneyti og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu þau áform að leggja til að rafmagnsöryggismál í byggingum ættu að falla undir þessi lög, undir lögin um byggingarmál, en þau hafa hingað til verið vistuð í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og þau falla undir starfsemi Neytendastofu sem áður var Löggildingarstofa. Nú veit ég að hv. þingmenn muna eftir átökunum um Löggildingarstofu þegar Rafmagnseftirlit ríkisins var lagt niður og Löggildingarstofa tók við af rafmagnseftirlitinu og því var mótmælt af félögum mínum. Ég man eftir að Ögmundur Jónasson skrifaði fjölda greina um þær einkavæðingarhugmyndir sem þar náðu fram að ganga þegar Löggildingarstofa var sett á laggirnar. Ég man ekki betur en skýrslur hafi leitt það í ljós að ýmsu væri ábótavant varðandi störf Löggildingarstofu. Ég teldi fulla ástæðu til að hér væri farið betur ofan í saumana á málunum og ég mundi óska eftir því að fram kæmu upplýsingar um hver staðan er núna varðandi þetta, hvort einhver bót hafi orðið í þeim efnum á rafmagnseftirlitsmálunum eða hvort enn sé ástæða til að taka betur á og hvort það sé kannski ástæðan fyrir þeim breytingum sem hér eru lagðar til, að þau málefni fari beinlínis undir umhverfisráðuneytið. Mér finnst það skynsamlegt og ég er algerlega sannfærð um það að það kemur til með að verða farsælla fyrir málaflokkinn að setja rafmagnseftirlitið undir umhverfisráðuneytið og undir þær heildarreglur sem fólgnar eru í frumvarpi til laga um mannvirki.

Varðandi síðan bolmagn sveitarfélaga eða hvað eigum við að segja, möguleika sveitarfélaga á að fara eftir svona flóknum lögum hvort heldur er byggingarlögin eða skipulagslögin, þá er það athyglisvert sem við höfum fengið að heyra í fréttum upp á síðkastið að sveitarfélögin sem hafa gríðarlega mikið vald í skipulagsmálum hafa í þessum stærri ákvörðunum sem þau standa frammi fyrir núna kveinkað sér undan því að þau skorti fjármuni, fagþekkingu og bolmagn til að fylgja eftir skipulagsákvörðununum, sérstaklega þegar farið er út í kæruferli, þegar um er að ræða umdeildar ákvarðanir þar sem þarf að setja hluti í fræðilegt og faglegt ferli. Ég hefði því haldið að það væri einn af þeim þáttum sem við þyrftum að skoða enn betur, þ.e. möguleika sveitarfélaganna til að fylgja eftir svona flókinni lagasetningu og umfangsmikilli eins og hér er og þá sérstaklega þegar við erum að reyna að horfa svona heildstætt á málin og áttum okkur auðvitað á því að ákvörðun sem tekin er um skipulag í einu sveitarfélagi getur haft veruleg áhrif á skipulag í öðru sveitarfélagi. Skýrasta dæmið um það núna eru deilurnar um annars vegar álversstækkun í Straumsvík, sem á að fara að greiða atkvæði um hjá Hafnfirðingum 31. mars, þ.e. um deiliskipulagstillögu, en á sama tíma standa sams konar deilur hjá sveitarfélögunum í kringum neðri hluta Þjórsár varðandi virkjunarframkvæmdirnar þar. Og nú sjá menn algerlega í hendi sér að ekki er ætlast til þess að sveitarfélögin í kringum neðri hluta Þjórsár taki ákvörðun um stækkun álversins og ekki heldur er ætlast til þess að Hafnfirðingar taki ákvörðun um virkjanirnar, en þá spyr maður: Er þetta ekki dæmi um áætlun sem væri heildstæð skipulagsáætlun sem þyrfti að skoðast í samhengi og þyrfti að taka ákvörðun um á vettvangi sem væri víðari en þessi tvö sveitarfélög? Hérna finnst mér vera ýmis álitamál sem við höfum dæmi um í okkar nánasta umhverfi í þessum töluðu orðum.

Ég tel mikilvægt að fram komi hjá hæstv. umhverfisráðherra einhver sjónarmið í þessum efnum og hefði auðvitað eins og ég hóf mál mitt á að segja viljað sjá miklu yfirgripsmeiri og lengri umræðu um þessi mál til að við gætum látið þau sjónarmið sem hér kæmu upp í máli alþingismanna fylgja málinu til nefndarinnar. En komið er samkomulag um að málin fái að fara til nefndarinnar og þá auðvitað gera þau það. Svo fær framtíðin að leiða það í ljós hvort þau líta dagsins ljós á næsta þingi í sama búningi og þau eru í núna eða hvort einhverjar breytingar verði þar á. Svörin við þeim spurningum ber framtíðin í skauti sér.