133. löggjafarþing — 83. fundur,  2. mars 2007.

mannvirki.

662. mál
[00:55]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leitast við að vera óskaplega stuttorð í ljósi þess hvað klukkan er og taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og árétta að það var ekki ósk mín að við værum að ræða þessi mál á þessum tíma sólarhringsins, heldur átti ég von á að mæla fyrir þessum málum í upphafi þingfundar dag. Það hefur eitthvað breyst í því.

Í fyrsta lagi ætla ég að taka undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og sýn hennar á þessa heildstæðu áætlun um landnotkun því að þeirri áætlun er ætlað að taka yfir m.a. nýtingaráætlun, verndaráætlun, samgönguáætlun og annað, þannig að við skoðum þetta allt í einu samhengi. Þessa áætlun á Skipulagsstofnun að vinna undir forræði umhverfisráðherra og leggja fyrir Alþingi. Með því náum við utan um þetta allt og sköpum sátt um það en skiljum ekki einstök sveitarfélög eftir. Þessari áætlun er ætlað að vera bindandi fyrir sveitarfélögin þótt þau haldi forræði sínu á skipulagsvaldinu að öðru leyti eins og verið hefur.

Síðan vildi ég nefna, vegna þess að hv. þingmaður nefndi Árósasamninginn, að hvað varðar skipulags- og byggingarlögin eru þessi ákvæði og önnur, sem hv. þingmaður nefndi ekki, mjög í anda Árósasamningsins og ef það héngi einungis á þessari löggjöf gætum við fullgilt hann í ljósi þessa en það eru önnur lög á forræði annarra ráðuneyta sem jafnframt þarf að horfa til svo hægt sé að fullgilda samninginn en ákvæðin eru öll í þeim anda í þessu frumvarpi.

Herra forseti. Að lokum þakka ég mjög góða umræðu, þó að hún hafi verið stutt og knöpp um þessi tvö mál sem ég hef mælt fyrir, og mjög gagnlegar ábendingar. Loks árétta ég það að ég lagði ekki til að hv. umhverfisnefnd vísaði málunum eingöngu til umsagnar og aðhefðist ekkert meira, heldur benti ég á að vegna starfsáætlunar þingsins og hve stutt er eftir að þingtímanum, ef áætlunin gengur eftir, þá vinnst trúlega ekki tími hjá umhverfisnefnd að ljúka þessum málum (Forseti hringir.) sem ég vildi þó að hægt væri.